Pacta sunt servanda?

Talsmenn og ÁrniHér má sjá Elvar og Guðbjörgu á fundi hjá Árna Sigfússyni bæjarstjóra Reykjanesbæjar. Elvar er að afhenda honum samantekt úr fjölmiðlum, en Árni heldur á yfirlýsingu frá Sól á Suðurnesjum. 

 

 

 

Allir sveitarstjórarnir tóku okkur vel. Í Grindavík var okkur boðið kaffi. Í Garðinum nammi. Í Reykjanesbæ fengum við yfirlýsingu til baka frá Árna með yfirskriftinni ,,Pacta sunt servanda" eða ,,Halda skal gerða samninga". Ég geri ekki ráð fyrir því að hann hafi verið að meina kosningaloforðið um íbúalýðræði.

Yfirlýsing Árna Sigfússonar:

Pacta sunt servanda - Til upplýsingar fyrir samtökin Sól á Suðurnesjum

Trúverðugleiki manna hefur jafnan verið metinn eftir því hvernig þeir standa við orð sín. Þeir sem ekki standa við gerða samninga eru að jafnaði ekki hátt skrifaðir og fáir vilja eiga viðskipti við slíka aðila. Mikilvægt er fyrir sveitarfélag að stjórnvöld þess standi vörð um trúverðugleika þess.

Aðilar sem leita til sveitarfélags um uppbyggingu á atvinnurekstri verða að geta treyst því að samningar sem þeir gera við til þess bær stjórnvöld í sveitarfélaginu standi.

Pacta sunt servanda-reglan hefur gilt og verið í heiðri höfð frá upphafi samfélags manna. Stjórnvöld í Reykjanesbæ standa við gefin loforð og gerða samninga. Það gildir jafnt um kosningaloforð og samninga sem gerðir eru við lögaðila.

Í undirrituðum samningum Reykjanesbæjar um lóð undir álver í Helguvík eru engir fyrirvarar um að málið skuli lagt undir sérstaka kosningu íbúa. Megin samningarnir, sem tengjast þjónustu hafnarinnar og úthlutun og gerð lóðar við Helguvík, voru samþykktir samhljóða í bæjarstjórn í maí í fyrra, stuttu fyrir bæjarstjórnarkosningar 2006. Þá höfðu verið gerðar tvær marktækar skoðanakannanir á meðal íbúa sem sýndu ótvíræðan stuðning við álver í Helguvík.

Engin tillaga kom fram um sérstaka íbúakosningu, engin bókun var gerð um það.

Samningar sem samþykktir voru nú í janúar 2007 ganga eingöngu út á að færa álverið norðar og fjær byggð. Það var samþykkt samhljóða í bæjarstjórnum Reykjanesbæjar og Sveitarfélagsins Garðs.

Samningnum tilheyra fyrirvarar um niðurstöður af mati á umhverfisáhrifum, orkuöflun og löglega meðferð málsins. Það ferli fer nú fljótlega af stað með vönduðum kynningum.

Það er ætlan stjórnenda Reykjanesbæjar að í kynningarferlinu framundan verði tryggt að öll sjónarmið fái að koma fram og verði metin  á sanngjarnan hátt í lýðræðislegu stjórnsýsluferli sem gildir lögum samkvæmt. 

 

 

 

Þetta hafði Blaðiðí  dag um málið að segja . 

arni


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband