Nóg að gera í Helguvík!

Í Morgunblaðinu í dag er skýrt frá því að nú sé farið að landa meginhluta af því flugvélaeldsneyti sem notað er á Keflavíkurflugvelli í Helguvíkurhöfn. Þetta er mjög jákvæð þróun þar sem olíubílum á Reykjanesbrautinni mun fækka um 3500 stykki og Reykjaneshöfn mun fá auknar tekjur.

"Við vonum að þessi nýju umsvif muni bæta okkur upp það tekjutap sem við urðum fyrir við brottför varnarliðsins" segir Pétur Jóhannson hafnarstjóri.

Nú þegar er búið að úthluta lóðum á fyrirhuguðu iðnaðarsvæði í Helguvík og fyrstu fyrirtækin komin. Nálægðin við flugvöllinn og höfnina skapar góð tækifæri og að sögn Péturs er mikil uppbygging framundan.

Þá er bara stóra spurningin: Þurfum við álver í Helguvík til þess að þessi uppbygging geti átt sér stað? Þurfum við álver til þess að fá aukinn innflutning og viðskipti í gegnum höfnina? Mér sýnist að þetta gangi bara ágætlega þótt langt sé í land með álverið.

Við höfum flugvöllinn og endalaus tækifæri til uppbyggingar í tengslum við hann, notum þessi tækifæri! Hættum að hugsa um álver og setjum alla okkar krafta í þau fjölmörgu atvinnutækifæri sem eru allstaðar í kringum okkur.

Á Austurlandi voru helstu rökin fyrir byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði þau að atvinnuástand og byggðarþróun væru  í molum. Fólk flúði að austan í stórum straumum, ef því á annað borð tókst að selja húsin sín, sem voru orðin svo ódýr vegna þess að enginn vildi flytja þangað.

Á Suðurnesjum eru þessi rök engan vegin viðeigandi. Uppbygging hefur verið svakaleg hérna síðustu árin. Íbúum hefur fjölgað og ný störf skapast á hverju ári. Atvinnuástandið er gott og hér er gott að búa. Hvaða ástæðu höfum við til þess að fórna Reykjanesskaganum, frábæru atvinnutækifæri í ferðaþjónustu, fyrir álver sem engin þörf er á?

Guðbjörg R. Jóhannesdóttir


mbl.is 3.500 olíubílar af brautinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband