Þriðjudagur, 6. febrúar 2007
Okkar einkamál?
Hversu stórt mál er fyrirhuguð álversframkvæmd í Helguvík? Hverjum kemur hún við? Er hún einkamál íbúa Reykjanesbæjar? Er hún einkamál Garðbúa? Eða kannski einkamál stjórnvalda þessara bæjarfélaga?
Reykjanesbær og Garður fá fullt af peningum í kassann sinn, íbúar sveitarfélaganna fá peninga fyrir nýrri vatnsrennibraut í sundlaugina, fyrir nýjum gangbrautum, fá jafnvel styrki til tómstunda-og íþróttastarfs. Þetta virðist allt vera hið besta mál ef einungis er horft á þá peninga sem tvö bæjarfélög fá í vasann.
En viljum við vera svo þröngsýn? Viljum við bara hugsa um okkar eigin einkahagsmuni?
Ef horft er á fyrirhugaðar álversframkvæmdir í heild sinni lítur myndin svolítið öðruvísi út. Ef álver verður byggt í Helguvík þarf að skaffa því raforku. Margir halda að við eigum svo mikla jarðvarmaorku úti á Reykjanesi hvort sem er, fullt af ónýttri orku, og það sé þá eins gott að gera eitthvað við hana. Jú við eigum þrjár jarðvarmavirkjanir á Reykjanesinu, en þær duga ekki til þess að skaffa næga orku fyrir álver. Álbræðsla er jú einn orkufrekasti iðnaður í heimi. Til þess að skaffa næga orku fyrir álver í Helguvík þurfum við að fara lengra út á skagann og bora í sundur Trölladyngjusvæðið, Hengilsvæðið, Austurengjar og Seltún í Krísuvík og kannski fleira?
Nú er miðað við 250.000 tonna álver í Helguvík, en eins og sjá má í Hafnarfirði, eru svo lítil álver ekki hagkvæm til lengdar. Hvaðan eigum við að fá orkuna þegar álverið í Helguvík þarf að stækka eða annars fara?
Svo þegar búið er að bora í sundur hin ósnortnu víðerni Reykjanesskagans, þá þarf að leggja yfir þau 30 metra háar háspennulínur frá öllum virkjununum yfir til Helguvíkur.
Fórnin sem Garður og Reykjanesbær ætla að færa fyrir okkar hönd til þess að eignast peninga fyrir vatnsrennibraut og öðrum brýnum nauðsynjum er ansi stór. Reykjanesskaginn sem ósnortin víðerni og útivistarsvæði er lagður á borðið hjá Norðurál svo að á hann sé hægt að teikna borholur og háspennulínuskóg.
Og þá spyr ég aftur, er álverið í Helguvík einkamál Reykjanesbæjar og Garðs? Nei. Reykjanesbær og Garður eru búin að semja við Norðurál um lóð fyrir álverið, en þessi sveitarfélög eiga ekki ein að taka ákvörðun um það hvort Reykjanesskaginn verður lagður undir líka. Reykjanesskaginn snertir alla Suðurnesjabúa og þess vegna eigum við öll að fá að kjósa um það hvort álver og meðfylgjandi mannvirki séu velkomin.
Þarna er komin heildarmynd af álversframkvæmdunum: álver í Helguvík + nokkrar jarðvarmavirkjanir í viðbót á Reykjanesskaga (vonandi svona fallegar og lítið sjónmengandi eins og Hellisheiðarvirkjun!) + tvöföld háspennulína yfir skagann, meðfram Ósabotnavegi í Sandgerði (langþráður ferðamannavegur!) og yfir til Helguvíkur.
Svo er hægt að draga upp jafnvel stærri heildarmyndir af málinu. Hvað vilja Íslendingar fá mörg álver til landsins? Eitt álver á Húsavík, annað í Þorlákshöfn, eitt í Skagafirði, annað í Helguvík, og svo stækkun í Straumsvík. Hvað vilja Íslendingar fórna mikið af stórfenglegri náttúru sinni fyrir áliðnaðinn?
Og enn stærri mynd: Hvað hafa Íslendingar leyfi til að losa mikið af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið samkvæmt Kyoto bókuninni? Bara eitt álver myndi duga til þess að við förum yfir leyfileg losunarmörk.
Stóriðjustefnan er tímaskekkja. Eitthvað sem byrjað var að skipuleggja fyrir 50 árum. Hafa ekki einhverjar mikilvægar breytingar gerst á þessum tíma? Við sem erum fædd og uppalinn í nútímanum og ætlum okkur að byggja Ísland í framtíðinni viljum ekki sætta okkur við að ákvarðanir aftan úr fortíðinni fái að ráða okkar möguleikum í framtíðinni.
Fyrirhuguð álversframkvæmd í Helguvík snertir ekki bara hagsmuni tveggja bæjarfélaga, hún snertir alla Suðurnesjabúa, alla Íslendinga, og jafnvel alla jarðarbúa. Reynum að víkka sjóndeildarhringinn aðeins og hætta að hugsa bara um hagsmuni tveggja peningakassa til næstu 5-10 ára.
Guðbjörg R. Jóhannesdóttir
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.