Fimmtudagur, 22. febrúar 2007
Hvers vegna álver í Helguvík?
Suðurnesin eru eitt blómlegasta atvinnusvæði á Íslandi. Hér eru tækifærin á hverju strái. Alþjóðaflugvöllur sem vex á hverju ári, öflug smábátaútgerð, góðar hafnir sem bjóða upp á marga möguleika, gróska í byggingariðnaði, ört vaxandi ferðamannaiðnaður, og frábær staðsetning fyrir starfsemi lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem njóta góðs af nálægð við flugvöllinn og hafnirnar. Auk þess höfum við Varnarliðssvæðið sem býður upp á endalausa möguleika. Nú er m.a. talað um að setja þar á laggirnar háskóla og orkusetur, og eins og sést hefur á Akureyri hefur starfsemi háskóla mikil og jákvæð áhrif á nýsköpun í atvinnulífi.
Nýverið var stofnað nýtt útrásarfyrirtæki í orkugeiranum, Geysir Green Energy, sem hefur þann tilgang að fjárfesta í verkefnum tengdum sjálfbærri orkuframleiðslu víða um heim. Fyrirtækið mun standa að uppbyggingu orkuseturs og er einn af þeim aðilum sem standa að hugmyndum að alþjóðlegum háskóla með sérþekkingu á sviði orkumála og sjálfbærrar orkunýtingar. En ef af hugmyndum Norðuráls verður, um að nýta Varnarliðssvæðið sem vinnubúðir fyrir erlenda verkamenn sem yrðu vegna sérþekkingar sinnar óhjákvæmilega að koma að byggingu álversins, þá verður varla mikið pláss fyrir háskólastarfsemi þar næstu árin.
Hvers vegna ættu Suðurnesjamenn að þurfa á starfsemi álvers að halda? Ættum við ekki frekar að selja þekkingu okkar heldur en raforkuna? Á Austurlandi voru helstu rökin fyrir byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði þau að atvinnuástand og byggðarþróun væru í molum. Á Suðurnesjum eru þessi rök ekki viðeigandi. Uppbygging á svæðinu hefur verið mjög mikil síðustu árin. Íbúum hefur fjölgað í öllum bæjarfélögum og fjöldi nýrra starfa hefur skapast á hverju ári. Hvaða ástæðu höfum við til þess að fórna Reykjanesskaganum, frábæru atvinnutækifæri í ferðaþjónustu, fyrir álver sem engin þörf er á?Reykjanesskaginn er mjög dýrmæt náttúruperla, dýrmætari en mörg okkar gera sér grein fyrir. Áður fyrr hafa margir kannski hugsað til Reykjanesskagans sem gróðurlausrar og grámyglulegrar auðnar, en nú á dögum er fólk að uppgötva hversu einstaka náttúru við Suðurnesjabúar höfum í bakgarðinum. Reykjanesskaginn hefur jarðfræðilega sérstöðu á heimsvísu. Þar er að finna eina staðinn á jörðinni þar sem berlega má sjá hvar úthafshryggur gengur á land með eldsumbrotum og jarðhræringum. Jarðfræðingar frá American Geological Society sem þangað hafa komið tala um að á aðeins einum öðrum stað á jörðinni megi sjá svipaða jarðfræði; á Suðurskautslandinu. Þangað er mjög erfitt að komast, en Reykjanesskaginn er í nokkurra mínútna fjarlægð frá alþjóðaflugvelli! Þessi einstöku tækifæri fyrir ferðaþjónustu eru Suðurnesjabúar búnir að vera að uppgötva á síðustu árum og mikil uppbygging hefur átt sér stað. En sú mikla uppbygging er bara rétt að byrja, í framtíðinni mun hér vonandi rísa stórfenglegur eldfjallaþjóðgarður sem milljónir ferðamanna munu sækja á hverju ári. Á Hawai er einn slíkur garður og þangað koma 2.5 milljónir ferðamanna á ári.
En ef álver rís í Helguvík mun hér aldrei verða eldfjallaþjóðgarður. Ferðamennirnir geta haldið áfram að bruna beint af flugvellinum út á Suðurland eða upp á hálendi, eins gott að flýta sér fram hjá háspennulínuskóginum sem blasir við út um bílgluggann. Álver í Helguvík snýst ekki bara um eina lóð í Helguvík. Til þess að veita því orku þarf að byggja a.m.k þrjár nýjar jarðvarmavirkjanir í Trölladyngju, Seltúni og Sandfelli, og reisa háspennulínur frá virkjunum og yfir allan skagann. Tillögur Landsnets um háspennulínur gera ráð fyrir því að annaðhvort verði sett upp tvöföld háspennulína meðfram Reykjanesbrautinni, eða að ein lína fari meðfram Reykjanesbraut og önnur frá Trölladyngju yfir í Rauðamel, þvert yfir skagann í sveigju fram hjá Keili. Seinni kosturinn er sá ódýrari og hagkvæmari.
Sumir hafa velt fyrir sér hvort ekki sé hægt að nota jarðstrengi eða sæstrengi í staðinn. En jarðstrengur er allt að 5-8 sinnum dýrari en háspennulína og er því mun óhagkvæmari kostur. Sæstrengur frá Vogum eða Fitjum í Njarðvík til Helguvíkur kemur ekki í veg fyrir spjöll vegna orkuflutninga frá Seltúni, Sandfelli og Trölladyngju. Eftir sem áður þarf að leggja línu eftir endilöngum skaganum til þess að koma orkunni til Voga eða Fitja og þvera Sveifluháls og Núpshlíðarháls með orkuflutningamannvirkjum.
Sandgerðisbær hefur hafnað tillögum Landsnets um að háspennulínur fari í gegnum Ósabotna og Stafnes í landi bæjarins. Bæjarstjórnir Voga og Grindavíkur eiga eftir að fá formlegt erindi frá Landsneti um fyrirhugaðar háspennulínur í þeirra landi. Vilja Vogabúar og Grindvíkingar að í landi þeirra verði framin umhverfisspjöll með virkjunum og háspennulínuskógi? Vilja þeir vera þekktir fyrir það í framtíðinni að hafa leyft eyðileggingu á svæði sem er einstakt á heimsvísu?
Guðbjörg R. Jóhannesdóttir
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:42 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.