Opið bréf til fulltrúa Samfylkingar í Hitaveitu Suðurnesja

Kæru fulltrúar Samfylkingar,

Samfylkingin hefur undanfarið talað fyrir auknu íbúalýðræði og er skemmst að minnast þess þegar Samfylkingin í Hafnarfirði stóð fyrir íbúakosningu um stækkun álversins í Straumsvík.

Nú er undibúningur vegna áforma um álver í Helguvík í fullum gangi, og má búast við því að á næstunni verði m.a. teknar ákvarðanir um orkuöflun vegna álversins.

Í stefnu sinni Fagra Ísland leggur Samfylkingin áherslu á að styrkja stöðu náttúru- og umhverfisverndar, m.a. með aukinni þátttöku almennings í ákvarðanatöku, og að verndun náttúrunnar geti verið sú tegund nýtingar sem oft skilar mestum verðmætum.

Samtökin Sól á Suðurnesjum telja að mikil verðmæti liggi í náttúru Reykjanesskagans. Reykjanesskaginn býður upp á einstaka möguleika í ferðaþjónustu og hefur mikið útivistargildi. Ef áform um virkjanir í Trölladyngju, Seltúni og Sandfelli verða að veruleika og tilheyrandi línumannvirki rísa á skaganum mun útivistargildi svæðisins rýrna til muna og mörg góð tækifæri fyrir ferðaþjónustu, annan atvinnurekstur og náttúruvernd munu glatast.

Þess er að vænta að á næstunni muni stjórn Hitaveitu Suðurnesja fjalla um orkusölusamninga við Norðurál. Sól á Suðurnesjum hvetur fulltrúa Samfylkingarinnar í stjórn Hitaveitu Suðurnesja til þess að standa við stefnu flokksins varðandi íbúalýðræði og hafna því að gengið verði frá orkusölusamningum þar til vilji íbúa hefur verið kannaður með kosningu.
Frekari skuldbindingar, þ.m.t. undirritun orkusölusamninga, munu draga úr líkum á því að kosið verði um þessar framkvæmdir sem með beinum hætti varða íbúa 6 sveitarfélaga og í reynd þjóðina alla.

Virðingarfyllst,
Sól á Suðurnesjum

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband