Umræða um lýðræði mikilvæg

Í kvöld stóð Sól á Suðurnesjum fyrir opnum fundi um lýðræði í Sæborgu í Garði.
Framsögumenn voru Ólafur Páll Jónsson, heimspekingur og lektor við KHÍ og Guðmundur Rúnar Árnason, stjórnmálafræðingur og bæjarfulltrúi í Hafnarfirði. Eftir mjög fróðleg erindi var efnt til pallborðsumræðna sem öllum stjórnmálaflokkunum hafði verið boðið að taka þátt í. Fulltrúar þriggja flokka komu og tóku þátt, Lúðvík Bergvinsson frá Samfylkingu, Ragnhildur Sigurðardóttir frá Íslandshreyfingunni og Ragnheiður Eiríksdóttir frá Vinstri grænum.
Það var ljóst af máli framsögumanna og fundargesta að umræðan um lýðræði er mjög mikilvæg um þessar mundir. Margir telja að með kosningunni um stækkun álversins í Straumsvík hafi orðið viss vatnaskil í lýðræðismálum hér á Íslandi. Viðleitni stjórnarinnar í Hafnarfirði til þess að dreifa því valdi sem þeim hafði verið falið af íbúunum í auknum mæli í hendur þeirra sjálfra, og mikill vilji íbúanna sjálfra til þess að auka þátttöku sína í ákvarðanatöku urðu til þess að íbúakosning um stórt og flókið mál varð að veruleika. Hafnfirðingar stigu þarna mikilvægt skref, því að þessu skrefi hlýtur að fylgja það næsta: að alvarleg og upplýst umræða fari fram um það hvernig við viljum að lýðræðismálum verði háttað hér á landi í framtíðinni. Það er erfitt að sætta sig við það að vegna þess að ég bý hér en ekki þar fæ ég ekki að taka eins mikinn þátt í ákvarðanatöku.
Það sem mikilvægast er að læra af reynslunni sem Hafnfirðingar gengu í gegnum er það að mikil þörf er á því að stefna sé mótuð varðandi íbúa- og rökræðulýðræði í landinu. Hafnfirðingar höfðu ekki margar reynslusmiðjur að leita í þegar þeir mótuðu sína stefnu um hvernig ætti að standa að íbúakosningunni. En nú njótum við þess hin sveitarfélögin að geta sótt hugmyndir í þeirra smiðju.
Sól á Suðurnesjum hvetur Garð og Reykjanesbæ til þess að kynna sér stefnu Hafnarfjarðarbæjar um íbúalýðræði og taka þátt í því með opnum huga að þróun eigi sér stað í lýðræðismálum á Íslandi.
Sól á Suðurnesjum hvetur líka næstu ríkisstjórn, hver sem hún verður, til að leggja sig fram við að skapa hér lifandi rökræðusamfélag og auka þáttöku Íslendinga í ákvarðanatöku.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband