Laugardagur, 9. júní 2007
Engin vissa um álver í Helguvík
Margir virðast halda að það sé alveg öruggt mál að álverið í Helguvík verði að veruleika, jafnvel fólk sem er þeirrar skoðunar að álver sé ekki endilega besta lausnin fyrir Suðurnesin hefur gefist upp fyrirfram vegna þess að "það er bara búið að ákveða þetta og ekkert við því að gera."
Og auðvitað hafa forsvarsmenn framkvæmdanna gert allt til þess að viðhalda þessari trú fólksins með því að skrifa undir eins marga samninga og hægt er og lýsa því yfir að framkvæmdir muni hefjast í lok þessa árs.
En nú höfum við það svart á hvítu:
"Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að mikilvægt sé að stjórnmálamenn, orkufyrirtæki og almenningur geri sér grein fyrir því, að nýgerður orkusölusamningur Orkuveitu Reykjavíkur (OR) við Norðurál vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík sé ekki ávísun á að framkvæmdir hefjist þar. Enn séu margir endar óhnýttir, svo sem umhverfismat og skipulagsmál." (mbl.is 7.júní)
Það er nefnilega annað sem fólk virðist gleyma í þessu máli, og það eru þau umhverfisáhrif sem verða af þeim virkjunum sem þarf til þess að veita orku í álverið. Þrjár nýjar virkjanir á Reykjanesinu og tilheyrandi háspennulínur yfir skagann þverann munu eyðileggja svæði sem er einstakt á heimsvísu og er frábært útivistarsvæði við bæjardyr Suðurnesjabúa og höfuðborgarbúa.
Svo vill það líka gleymast að lóðin sem Garður og Reykjanesbær hafa útvegað Norðuráli er tvöföld, þar er semsagt gert ráð fyrir því að álverið verði tvöfalt líka. 250.000 tonna álver er ekki endanleg niðurstaða, lóðin gerir ráð fyrir 500.000 tonnum og þess vegna verðum við að gera ráð fyrir því líka. Viljum við risaálver inn í bæinn okkar? Hvar eigum við að fá orkuna í 500.000 tonnin? Úr Brennisteinsfjöllum kannski?
Ef okkur líst ekki á þessi áform verðum við að láta í okkur heyra og ekki samþykkja það þegjandi og hljóðalaust að "það sé bara búið að ákveða þetta"
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Að sjálfsögðu á fólk að láta í sér heyra ef það líkar ekki við þessi áform. Það er réttur hvers og eins. Skora á þá sem vilja kynna sér málið að lesa þessa skýrslu.
"Og auðvitað hafa forsvarsmenn framkvæmdanna gert allt til þess að viðhalda þessari trú fólksins með því að skrifa undir eins marga samninga og hægt er og lýsa því yfir að framkvæmdir muni hefjast í lok þessa árs"
Þarna eigið þið t.d við okkar lýðræðiskjörnu fulltrúa í Sveitarsjórnum, forsvarsmenn orkufyrirtækja og forsvarsmenn fyrirtækis sem vill opna hér verksmiðju sem bætir hag íbúa svæðisins svo um munar. Þið látið þetta hljóma eins og um einhvern lýð sé um að ræða sem er að reyna að blekkja fólk Það hefur verið vitað lengi vel að Álver ætti að rísa í Helguvík og með nokkuð almennri sátt íbúanna á svæðinu. Ef þið talið um að forsvarsmenn framkvæmdanna séu að beita hræðsluáróðri þá er verið að henda gróthnullungum út úr glerhúsi.
En hvet fólk til þess að kíkja á skýrsluna hér að ofan, vönduð og veitir miklar upplýsingar.
Örvar Þór Kristjánsson, 9.6.2007 kl. 22:53
Er almenn sátt um framkvæmdirnar á svæðinu? Hefur farið fram upplýst umræða um málið - aðra valkosti? Ég vil hvetja sveitarstjórnir á svæðinu að standa að upplýstri umræðu - og halda síðan almennar kosningar um málið.
Hver er þörfin á svæðinu fyrir álver? Er atvinnuleysi? Eru einhverjir aðrir möguleikar sem koma til greina? Hverjir eru t.d. hagsmunir íbúa í Vogunum í þessu máli?
Reyndar eru þetta ekki einkamál íbúa á svæðinu frekar en álverskosningarnar í Hafnarfirði - Satt að segja á ég afskaplega erfitt með að skilja að nokkur ábyrgur stjórnmálamaður styðji frekari stóriðjuframkvæmdir á meðan við fáum vísbendingar allt í kringum okkur að um alvarlegar afleiðingar gróðurhúsaáhrifa s.s. bráðnun jökla, hækkað hitastig sjávar og fjölgun fellibylja.
Flott hugmyndin um stúdentagarðana - má ekki fylgja henni en betur eftir? Gera svæðið að öflugu háskólasamfélagi í stað málmbræðslubæ?
Fregnir herma að stórfyrirtæki á borð við Yahoo, Microsoft o.fl. hafi verið að skoða þann möguleika að koma upp hýsingamiðstöðvum (datacenters) hér á landi - en viðræður strandað m.a. á því að orkufyrirtækin hafa ekki getað gefið þeim skýr svör um útvegun orku. Er það auðvitað mjög sérstakt - þar sem þessi fyrirtæki þurfi mun minni orku ca. 10 - 50 MW pr. starfsstöð en 250 þúsund tonna álver sem þarf virkjun með 500 MW uppsettu afli.
Hýsingamiðstöðvar þurfa jafnframt helmingi fleirri starfsmenn pr. megavatt og eru störfin betur launuð en störf í álverum. Efnahagsleg áhrif í samfélaginu ættu því að vera hlutfallslega mun meiri af hýsingarmiðstöðvum en af álverum miðað við orkuþörfina.
Er ekki umhugsunarvert að staldra við og upplýsa almenning um valkosti sína?
Valgerður Halldórsdóttir, 10.6.2007 kl. 15:27
Álframleiðsla er hátækniiðnaður. Af hverju er hann eitthvað verri en þessu fyrirtæki sem þú nefndir að ofan? Hafa þessi fyrirtæki verið að spá? En ekkert aðhafst. Af hverju ekki að hjálpa fyrirtæki sem vill hjálpa okkur? Eru tilbúnir til að hefjast handa. Vissulega er ekki atvinnuleysi, NÚNA en hvað segir sagan okkur? Það má þakka fyrir að ástandið hafi verið svona gott þegar herinn fór með allt sitt hafurtask. Ef atvinnuástand hefði verið bágt fyrir væri engin neikvæð umræða um þessar álversframkvæmdir. Þetta er framtiðar vinnuveitandi á svæðinu.
Svo er það nú annað með þessi tíðræddu gróðurhúsaáhrif. Þau eru ekki einungis tilkomin vegna stóriðju og sumir aðhyllast því að þetta sé bara eðilileg þróun.
Við mennirnir höfum núna í tæp 6000 ár brennt tré og byrjað að spúa efnum upp í andrúmsloftið. CO2 aðal gróðurhúsa gastegundin er um 0.038% af lofthjúpi jarðar.
Sólinn er búinn að vera til í milljarða ára og það þyrfti 11.900 Jarðir til þess að þekja hana. Massi hennar er á við 332.946 Jarðir. Hún hitar upp jörðina og líf þrífst einungis í litlu mæli án hennar.
Er ekki hægt að segja að það sé hreinlega röklegt ef orku útgeislun sólar eykst eða dalar um einhver brota prósentu stig þá hitni og kólni til skiptis á jörðinni.
Eða hvernig skýra menn annars hitatímabilið þegar risaeðlur voru uppi?
Ansi góð pæling frá einum bloggvin mínum. En útblástur ökutækja okkar er víst skaðlegur umhverfinu samt keyrum við þá.
Það er upplýst umræða og fólk getur nálgast allar upplýsingar sem það vill. Myndað sér síðan skoðun.
Örvar Þór Kristjánsson, 10.6.2007 kl. 18:45
Komdu sæll! Ég tel mig hafa nú þegar svarað nokkrum þeirra spurninga sem þú varpar fram.
Ég skil hinsvegar ekki spurninguna "Af hverju ekki að hjálpa fyrirtæki sem vill hjálpa okkur?" Í hverju er hjálp okkar fólgin - og hvaða hjálp þurfum við?
Vissulega menga samgöngur og draga má verulega úr þeirri mengun - þær eru okkur hinsvegar nauðsynlegar. Væri áhugavert ef að stjórvöld umbunaði sérstaklega þeim sem væru á "umhverfisvænni" bílum t.d. með lægri tollum og efldu almenningssamgöngur.
Leyfum náttúrunni að njóta vafans!
Valgerður Halldórsdóttir, 11.6.2007 kl. 15:52
Sæl
Sú hjálp er fólgin í því að efla og styrkja atvinnulífið á svæðinu um ókomna tið. Stórt fyrirtæki sem gerir ekki annað en að styrkja okkur. Það verður ávallt einhver fórnarkostnaður. Náttúran nýtur vafans. Við byggjum ekki nema rétt 3% landsins og eigum að nýta okkar auðlindir eins og hægt er. Það er fátt sem mælir gegn þessari tilteknu Álversframkvæmd, skýrslan tekur það skýrt fram.
Samgöngur eru nauðsynegar rétt er það en er það ekki nauðsynlegt að næg atvinna sé tryggð á svæðinu til frambúðar?
Maður á besta aldri var að rifja upp fyrir mér um daginn þann hræðsluáróður sem vinstri menn voru með þegar framkvæmdir við Álverið í Straumsvík voru hafnar. Þá átti enginn gróður, varla gras að geta vaxið vegna mengunnar. Varla líft á Suðurnesjum. Hvað hefur álverið í Straumsvík annað en gert okkur gott? Sama mun gerast með álverið okkar í Helguvík.
Það á að skoða hverja framkvæmd fyrir sig. Þessi er hinsvegar talin af flestum sérfræðingum vera arðbær og til mikilla bóta fyrir samfélagið. Eins umhverfisvænt og Álver geta verið. Vonum að það sjónarmið nái í gegn og að Álver rísi í Helguvík.
Örvar Þór Kristjánsson, 11.6.2007 kl. 22:33
Ég leyfi mér nú að hafa mínar efasemdur um hversu "arðbær" álver eru fyrir náttúruna. Hafa menn reiknað inn kostað við mengunarkvóta í arðsemisútreikninga sína? Eða á mengunarbótareglan bara við um almenning?
Valgerður Halldórsdóttir, 14.6.2007 kl. 11:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.