Þarf að virkja meira á Reykjanesi til að geta hafið orkuútrás?

Á dögunum hefur því verið haldið fram af nokkrum aðilum bæði í ríkisstjórn og stjórn Hitaveitu Suðurnesja að það sé nauðsynlegt að virkja meira á Reykjanesskaganum til þess að geta öðlast þekkingu á jarðvarmaorku sem hægt er að flytja út til annarra landa. Því er haldið fram að forsenda orkuútrásarinnar víðfrægu séu frekari virkjanir. Hér á síðu Framtíðarlandsins má lesa nánar um þetta mál. Það er ekki nauðsynlegt að fórna Reykjanesskaganum til þess að geta lagt okkar af mörkum í loftslagsvanda heimsins!

Opið bréf til fulltrúa Samfylkingar í Hitaveitu Suðurnesja

Kæru fulltrúar Samfylkingar,

Samfylkingin hefur undanfarið talað fyrir auknu íbúalýðræði og er skemmst að minnast þess þegar Samfylkingin í Hafnarfirði stóð fyrir íbúakosningu um stækkun álversins í Straumsvík.

Nú er undibúningur vegna áforma um álver í Helguvík í fullum gangi, og má búast við því að á næstunni verði m.a. teknar ákvarðanir um orkuöflun vegna álversins.

Í stefnu sinni Fagra Ísland leggur Samfylkingin áherslu á að styrkja stöðu náttúru- og umhverfisverndar, m.a. með aukinni þátttöku almennings í ákvarðanatöku, og að verndun náttúrunnar geti verið sú tegund nýtingar sem oft skilar mestum verðmætum.

Samtökin Sól á Suðurnesjum telja að mikil verðmæti liggi í náttúru Reykjanesskagans. Reykjanesskaginn býður upp á einstaka möguleika í ferðaþjónustu og hefur mikið útivistargildi. Ef áform um virkjanir í Trölladyngju, Seltúni og Sandfelli verða að veruleika og tilheyrandi línumannvirki rísa á skaganum mun útivistargildi svæðisins rýrna til muna og mörg góð tækifæri fyrir ferðaþjónustu, annan atvinnurekstur og náttúruvernd munu glatast.

Þess er að vænta að á næstunni muni stjórn Hitaveitu Suðurnesja fjalla um orkusölusamninga við Norðurál. Sól á Suðurnesjum hvetur fulltrúa Samfylkingarinnar í stjórn Hitaveitu Suðurnesja til þess að standa við stefnu flokksins varðandi íbúalýðræði og hafna því að gengið verði frá orkusölusamningum þar til vilji íbúa hefur verið kannaður með kosningu.
Frekari skuldbindingar, þ.m.t. undirritun orkusölusamninga, munu draga úr líkum á því að kosið verði um þessar framkvæmdir sem með beinum hætti varða íbúa 6 sveitarfélaga og í reynd þjóðina alla.

Virðingarfyllst,
Sól á Suðurnesjum

Fer þetta ekki að verða dálítið þreytt?

Í Mogganum í dag er sagt frá því að gamlar hugmyndir um álver á Keilisnesi í landi Voga hafi nú verið grafnar upp af haugunum. Ætlar þetta aldrei að enda? Á að planta álveri á hverju einasta götuhorni hérna á suðvesturhorninu? Ég vona bara að Vogabúar beri gæfu til þess að hafna þessum áformum bara strax. Hingað og ekki lengra!

Guðbjörg R. Jóhannesdóttir


Til hamingju Hafnarfjörður!

Nú eru Hafnfirðingar búnir að kjósa um stækkun álvers í Straumsvík, og við fögnum niðurstöðu þeirra. En hvenær eigum við á Suðurnesjum að fá að kjósa um álver í Helguvík? Í leiðara Morgunblaðsins í dag segir: "Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, hefur sagt að ekki sé hægt aðp efna til sambærilegrar atkvæðagreiðslu á Suðurnesjum, vegna þess, að samningar hafi þegar verið gerðir við Norðurál. En spyrja má, hvort ekki sé hægt að taka upp viðræður við forráðamenn Norðuráls þannig að þeir leysi Reykjanesbæ undan þeim skuldbindingum. Eftir atkvæðagreiðsluna í Hafnarfirði er erfitt fyrir forráðamenn Reykjanesbæjar að vera ekki öruggir um stuðning almennings á Suðurnesjum við ákvörðun um byggingu álvers þar."

Ef það á að vera í höndum sveitarfélaganna að ákvarða framtíð Íslands í stóriðjumálum, þá verður það sama að gilda um öll sveitarfélögin. Það þýðir ekki að íbúar eins sveitarfélags fái að kjósa en að í næsta sveitarfélagi sjái tveir bæjarstjórar og félagar þeirra um að taka ákvörðunina. Það sama á að gilda fyrir alla, og fyrst Hafnfirðingar fá að kjósa um sína framtíð eigum við Suðurnesjabúar rétt á því að fá að gera slíkt hið sama.

Guðbjörg R. Jóhannesdóttir


Árni, hvað gerðir þú núna?

Í fjölmiðlum í dag mátti sjá fréttatilkynningu þess efnis að ráðist verði í framkvæmdir í Helguvík síðar á árinu sem ljúka eigi ekki síðar en árið 2015. Nefndar voru fjármálastofnanir sem mögulegir fjárfestar og gefið var í skyn allt væri nokkurvegin klappað og klárt. Ef þetta er rétt þá vita stjórnendur Norðuráls eitthvað meira en að okkur er haldið því ég veit ekki betur en að Sandgerðingar séu enn andsnúnir línumannvirkjum. Hvernig ætla þeir að koma orku öðruvísi inn í Helguvík? Getur verið að þrátt fyrir gagnrýni á leynimakk og bakherbergisfundi þá séu ráðandi öfl í þessu máli komin enn dýpra í pukrið? Á að keyra þetta í gegn á brynvörðum trukki?  

 

 

 

Elvar Geir Sævarsson 


Vel heppnuð ráðstefna um Eldfjallagarð

Í gær héldu sólirnar þrjár á Suðurnesjum, Suðurlandi og í Straumi ráðstefnu um Eldfjallagarð á Reykjanesskaga. Ráðstefnan var vel sótt og flutt voru mjög fróðleg erindi um stöðu Reykjanesskagans. Á heimasíðu Landverndar má finna umfjöllun um ráðstefnuna, þar er m.a. hægt að skoða þau erindi sem voru flutt.

Sólin skein skært yfir Reykjanesskagann í gær og hún mun halda áfram að skína og rísa hærra með vorinu!

 


Ráðstefna um Eldfjallagarð á Reykjanesi

Eldfjallagarður– ný sýn og ný tækifæri á Reykjanesskaga!
 
Laugardaginn 24. mars n.k. kl. 14.00 - 16.30 verður opin ráðstefna í
Hraunseli, Flatahrauni 3 í Hafnarfirði um þá framtíðarsýn, að Reykjanesskagi verði
eldfjallagarður og fólkvangur.

Ráðstefna þessi er í framhaldi af ráðstefnum og fundum Landverndar um framtíðarsýn samtakanna á Reykjanesskaga og hvað hann hefur upp á að bjóða varðandi náttúruvernd, útivist, ferðamennsku og nýtingu jarðvarma og jarðhitaefna. Hugmyndin um eldfjallagarð tengir alla þessa þætti saman.
 
Kosningar um stækkun álversins í Straumsvík, áform um álver í Helguvík og hugmyndir
um jarðvarmavirkjanir víðsvegar á Reykjanesskaganum, gera alla umræðu um framtíð Reykjanesskagans mjög tímabæra.

 Framsögu halda:
Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur:  Jarðfræði Reykjanesskagans       
Ásta Þorleifsdóttir, jarðfræðingur:  Eldfjallagarður: Atvinna, fræðsla og útivist   
Bergur Sigurðsson, frkvstj. Landverndar:  Álver og orkuvinnsla                      
Jónatan Garðarsson, þáttagerðarmaður:  Reykjanessfólkvangur                   
Sr.  Gunnar Kristjánsson prófastur:   "Útsprunginn fífill"  Endalok stóriðju?               

Allir velkomnir!
 
Sól á Suðurnesjum, Sól í Straumi  og Sól á Suðurlandi               

Ath: Hraunsel er næsta hús við verslun Nóatúns á mótum Reykjavíkurvegar
og Flatahrauns.




 


Sandgerðingar standa við orð sín!

Sól á Suðurnesjum fagnar því að Sandgerðingar standa við orð sín og hafna því að land þeirra verði lagt undir háspennulínur vegna álvers í Helguvík. Grindvíkingar og íbúar Voga ættu að taka Sandgerðinga sér til fyrirmyndar í þessu máli!

Þessi frétt er á vef Víkurfrétta vf.is í dag: 

"Sandgerði: Engar loftlínur, takk

Bæjaryfirvöld í Sandgerði sitja föst við sinn keip og hafna því algjörlega að háspennulínur vegna álvers í Helguvík verði lagðar í landi sveitarfélagsins. Fulltrúar Landsnets komu á fund bæjarráðs á dögunum til viðræðna um málið en sá fundur breytti engu um afstöðu bæjaryfirvalda, sem sjá ástæðu til að árétta hana í fundargerð.

Í fundargerð bæjarstjórnar í vikunni segir að um leið og hún árétti niðurstöður sínar frá fundi þann 7. febrúar, þar sem fyrirhuguðum línustæðum til Helguvíkur er mótmælt, þá sé rétt að taka fram að gefnu tilefni, að þrátt fyrir heimsókn fulltrúa Landsnets á fund bæjarráðs þann 13. mars, þá muni bæjarstjórn ekki fallast á loftlínur á umræddum svæðum og er vísað í fyrri forsendur bæjarstjórnar."



 


Björt framtíð

Framtíðarlandið kynnti í dag sáttmála um framtíð Íslands sem okkur öllum og ráðamönnum er boðið að samþykkja. Ef þjóðin samþykkir þennan sáttmála ætti framtíðin að geta orðið mjög björt á Íslandi.

Við þurfum ekki að fórna einstakri náttúru okkar fyrir 2070 störf í álverum í hverjum landshluta. Störf fyrir 0,69% þjóðarinnar. Við þurfum framsækið og fjölbreytt atvinnulíf í sátt við náttúruna.

Sól á Suðurnesjum hvetur alla til að samþykkja sáttmála um bjarta framtíð!  Skrifið undir hér!


mbl.is Framtíðarlandið kynnir sáttmála um framtíð Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loftslagið í Evrópu

Í Morgunblaðinu í dag er greint frá því að á loftslagsráðstefnu Evrópusambandsins í Brussel verði kynnt ný áætlun í loftslagsmálum sem muni hafa gríðarlegar breytingar í för með sér. Stefnt er að því að útblástur gróðurhúsalofttegunda verði 20% minni árið 2020 en árið 1990.

Við Íslendingar ættum að fylgja Evrópu eftir í þessum málum. Í stað þess að auka útblástur okkar sífellt með lúxusjeppum og álverum ættum við að vera að sýna öðrum fordæmi. Evrópa vonast til að Kína, Indland og Bandaríkin verði með okkur á bandi. Ættum við ekki að einbeita okkur að því að miðla þekkingu okkar á hreinni orku til þessara landa í stað þess að fylla landið okkar af álverum? Ættum við ekki að einbeita okkur að því að draga úr framleiðslu í orkufrekum iðnaði eins og áliðnaði frekar en að auka hana?

 


mbl.is Blair segir „gríðarlegar“ breytingar í vændum í loftslagsmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband