Fimmtudagur, 22. febrúar 2007
Hvers vegna álver í Helguvík?
Suðurnesin eru eitt blómlegasta atvinnusvæði á Íslandi. Hér eru tækifærin á hverju strái. Alþjóðaflugvöllur sem vex á hverju ári, öflug smábátaútgerð, góðar hafnir sem bjóða upp á marga möguleika, gróska í byggingariðnaði, ört vaxandi ferðamannaiðnaður, og frábær staðsetning fyrir starfsemi lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem njóta góðs af nálægð við flugvöllinn og hafnirnar. Auk þess höfum við Varnarliðssvæðið sem býður upp á endalausa möguleika. Nú er m.a. talað um að setja þar á laggirnar háskóla og orkusetur, og eins og sést hefur á Akureyri hefur starfsemi háskóla mikil og jákvæð áhrif á nýsköpun í atvinnulífi.
Nýverið var stofnað nýtt útrásarfyrirtæki í orkugeiranum, Geysir Green Energy, sem hefur þann tilgang að fjárfesta í verkefnum tengdum sjálfbærri orkuframleiðslu víða um heim. Fyrirtækið mun standa að uppbyggingu orkuseturs og er einn af þeim aðilum sem standa að hugmyndum að alþjóðlegum háskóla með sérþekkingu á sviði orkumála og sjálfbærrar orkunýtingar. En ef af hugmyndum Norðuráls verður, um að nýta Varnarliðssvæðið sem vinnubúðir fyrir erlenda verkamenn sem yrðu vegna sérþekkingar sinnar óhjákvæmilega að koma að byggingu álversins, þá verður varla mikið pláss fyrir háskólastarfsemi þar næstu árin.
Hvers vegna ættu Suðurnesjamenn að þurfa á starfsemi álvers að halda? Ættum við ekki frekar að selja þekkingu okkar heldur en raforkuna? Á Austurlandi voru helstu rökin fyrir byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði þau að atvinnuástand og byggðarþróun væru í molum. Á Suðurnesjum eru þessi rök ekki viðeigandi. Uppbygging á svæðinu hefur verið mjög mikil síðustu árin. Íbúum hefur fjölgað í öllum bæjarfélögum og fjöldi nýrra starfa hefur skapast á hverju ári. Hvaða ástæðu höfum við til þess að fórna Reykjanesskaganum, frábæru atvinnutækifæri í ferðaþjónustu, fyrir álver sem engin þörf er á?Reykjanesskaginn er mjög dýrmæt náttúruperla, dýrmætari en mörg okkar gera sér grein fyrir. Áður fyrr hafa margir kannski hugsað til Reykjanesskagans sem gróðurlausrar og grámyglulegrar auðnar, en nú á dögum er fólk að uppgötva hversu einstaka náttúru við Suðurnesjabúar höfum í bakgarðinum. Reykjanesskaginn hefur jarðfræðilega sérstöðu á heimsvísu. Þar er að finna eina staðinn á jörðinni þar sem berlega má sjá hvar úthafshryggur gengur á land með eldsumbrotum og jarðhræringum. Jarðfræðingar frá American Geological Society sem þangað hafa komið tala um að á aðeins einum öðrum stað á jörðinni megi sjá svipaða jarðfræði; á Suðurskautslandinu. Þangað er mjög erfitt að komast, en Reykjanesskaginn er í nokkurra mínútna fjarlægð frá alþjóðaflugvelli! Þessi einstöku tækifæri fyrir ferðaþjónustu eru Suðurnesjabúar búnir að vera að uppgötva á síðustu árum og mikil uppbygging hefur átt sér stað. En sú mikla uppbygging er bara rétt að byrja, í framtíðinni mun hér vonandi rísa stórfenglegur eldfjallaþjóðgarður sem milljónir ferðamanna munu sækja á hverju ári. Á Hawai er einn slíkur garður og þangað koma 2.5 milljónir ferðamanna á ári.
En ef álver rís í Helguvík mun hér aldrei verða eldfjallaþjóðgarður. Ferðamennirnir geta haldið áfram að bruna beint af flugvellinum út á Suðurland eða upp á hálendi, eins gott að flýta sér fram hjá háspennulínuskóginum sem blasir við út um bílgluggann. Álver í Helguvík snýst ekki bara um eina lóð í Helguvík. Til þess að veita því orku þarf að byggja a.m.k þrjár nýjar jarðvarmavirkjanir í Trölladyngju, Seltúni og Sandfelli, og reisa háspennulínur frá virkjunum og yfir allan skagann. Tillögur Landsnets um háspennulínur gera ráð fyrir því að annaðhvort verði sett upp tvöföld háspennulína meðfram Reykjanesbrautinni, eða að ein lína fari meðfram Reykjanesbraut og önnur frá Trölladyngju yfir í Rauðamel, þvert yfir skagann í sveigju fram hjá Keili. Seinni kosturinn er sá ódýrari og hagkvæmari.
Sumir hafa velt fyrir sér hvort ekki sé hægt að nota jarðstrengi eða sæstrengi í staðinn. En jarðstrengur er allt að 5-8 sinnum dýrari en háspennulína og er því mun óhagkvæmari kostur. Sæstrengur frá Vogum eða Fitjum í Njarðvík til Helguvíkur kemur ekki í veg fyrir spjöll vegna orkuflutninga frá Seltúni, Sandfelli og Trölladyngju. Eftir sem áður þarf að leggja línu eftir endilöngum skaganum til þess að koma orkunni til Voga eða Fitja og þvera Sveifluháls og Núpshlíðarháls með orkuflutningamannvirkjum.
Sandgerðisbær hefur hafnað tillögum Landsnets um að háspennulínur fari í gegnum Ósabotna og Stafnes í landi bæjarins. Bæjarstjórnir Voga og Grindavíkur eiga eftir að fá formlegt erindi frá Landsneti um fyrirhugaðar háspennulínur í þeirra landi. Vilja Vogabúar og Grindvíkingar að í landi þeirra verði framin umhverfisspjöll með virkjunum og háspennulínuskógi? Vilja þeir vera þekktir fyrir það í framtíðinni að hafa leyft eyðileggingu á svæði sem er einstakt á heimsvísu?
Guðbjörg R. Jóhannesdóttir
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 21. febrúar 2007
Ekki í okkar nafni
Örvænting og ofbeldi samræmast ekki baráttuaðferðum Sólar á Suðurnesjum. Það má ekki missa sjónar á því að maðurinn spillir náttúrunni, ekki vélarnar. Og í þessu tilfelli voru það reyndar menn að spilla vélum. Hryðjuverkasamtök í nafni náttúruverndar vinna á móti okkar boðskap með því að draga úr trúverðugleika og trausti.
Elvar Sævarsson
Segjast hafa skemmt vinnuvélar í mótmælaskyni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 19. febrúar 2007
Þetta er málið.
Því hefur verið haldið fram að það besta sem Ísland getur lagt af mörkum til þess að takast á við gróðurhúsavandann sé að framleiða ál. Margt er að athuga við þá framsetningu sem margir þó hampa hátt, meira um það síðar. En víkur þá að þessari góðu frétt. Hún sýnir og sannar að Ísland getur látið gott af sér leiða í lotslagsmálum og það án þess að spilla perlunum okkar.
Við skulum leggja okkar af mörkum í loftslagsmálum en við skulum gera það af skynsemi. Með því að nýta þekkingu okkar til þess að takast á við orkuvandamál landa á borð við Indland, Azoreyjar, Kína o.fl. getum við gert mun meira gagn en sem nemur framlagi okkar sem felst í fórnum á náttúruperlum í þágu í mengandi frumframleiðslugreinar.
Fyrirtæki á borð Geysir Green Energy,HydroKraft Invest og nú Orkuveita Reykjavíkur geta látið gott af sér leiða. Þau ættu að leggja meiri áherslu á útrás, til landa þar sem þörfin er fyrir hendi, fremur en endalausar innrásir á náttúruperlurnar okkar. Gnægð er af vatnsafli og jarðvarma á Indlandi. Stjórnvöld þar hyggjast virkja sem nemur 100.000 MW fyrir 2012. Þarna gæti okkar þekking komið að góðum notum. Heimild World Bank.
Vel gert Orkuveita Reykjavíkur.
OR rannsakar jarðhita í Djíbútí | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 14. febrúar 2007
Yfirlýsing frá fundi Sólar á Suðurnesjum í Grindavík 13. febrúar.
Opinn fundur Sólar á Suðurnesjum hvetur bæjarstjórnir Grindavíkur og Voga á Vatnsleysustönd til þess að hafna tillögum Landsnets um háspennulínuvæðingu Reykjanesskagans. Ótækt er að orkuflutningamannvirki verði látin skera Reykjanesskagann endilangt og hjarta fólkvangsins þvert. Sandgerðisbær hefur þegar hafnað tillögum Landsnets um háspennulínur þvert yfir Stafnes um Ósabotna vegna þeirra umhverfisspjalla sem slík mannvirki myndu valda. Háspennulínur skerða og koma í veg fyrir aðra landnýtingu.
Reykjanesskaginn hefur jarðfræðilega sérstöðu á heimsvísu þar sem þar er að finna eina staðinn á jörðinni þar sem berlega má sjá hvar úthafshryggur gengur á land með eldsumbrotum og jarðhræringum. Jarðfræðileg sérstaða, ásamt nálægð við Bláa Lónið, flugvöllinn og höfuðborgina skapar einstök tækifæri fyrir ferðaþjónustuna. Stóriðjuáform samræmast illa langtímahagsmunum ferðaþjónustunnar. Gríðarleg tækifæri eru til útivistar á Reykjanesskaganum en háspennulínur myndu rýra útivistargildi hans til muna.
Lítil sem engin umræða hefur farið fram um málið á meðal íbúa Suðurnesja og þrátt fyrir skiptar skoðanir íbúa er unnið að framvindu málsins af fullum krafti. Áform um álver í Helguvík snerta íbúa allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum þar sem virkjanir með tilheyrandi umhverfisraski myndu rísa í landi Grindavíkur, Voga og Hafnarfjarðar, háspennulínur myndu fara um þessi sömu sveitarfélög auk Sandgerðis, og álverið sjálft yrði staðsett í Garðinum og Reykjanesbæ.
Þriðjudagur, 13. febrúar 2007
Opinn fundur í Grindavík í kvöld
Í kvöld, þriðjudaginn 13. febrúar kl. 20.00, mun Sól á Suðurnesjum standa fyrir opnum fundi í Saltfisksetrinu í Grindavík. Yfirskrift fundarins er: Álver í Helguvík, virkjanir og háspennulínur í Grindavík. Dagskrá er svohljóðandi:
Samtökin Sól á Suðurnesjum og markmið þeirra: Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, heimspekingur og talskona samtakanna.
Umhverfisáhrif álvers í Helguvík: Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar.
Útivist á Reykjanesskaganum: Börkur Karlsson, leiðsögumaður.
Opnar umræður.
Við hvetjum alla Suðurnesjabúa til að sýna samstöðu og fjölmenna á fundinn!
Sunnudagur, 11. febrúar 2007
Til hamingju Sól á Suðurlandi!
Sól á Suðurnesjum óskar Sól á Suðurlandi til hamingju með fundinn sem haldinn var í dag í Árnesi! Við tökum undir með ályktun fundarins og skorum á íslensk stjórnvöld að fórna ekki náttúrunni fyrir mengandi stóriðju. Það er kominn tími til að vakna og segja stopp!
Troðfullt í Árnesi á fundi gegn virkjunum neðri hluta Þjórsár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 9. febrúar 2007
Góðar fréttir!
Í Morgunblaðinu í dag: "Bæjarstjórn Sandgerðis hafnar hugmyndum Landsnets um að háspennulínar verði lagðar um endilanga Miðnesheiði vegna flutnings á raforku frá virkjunum til hugsanlegs álvers í Helguvík. Bæjarstjórnin getur ekki sætt sig við þau umhverfisspjöll sem slík lína veldur auk þess sem hún setji hömlur á framtíðaruppbyggingu bæjarfélagsins"
Sigurður Valur, bæjarstjóri í Sandgerði sér til Sólar!
Þetta eru frábærar fréttir fyrir Sandgerðinga og Sól á Suðurnesjum fagnar því að bæjarstjórn Sandgerðis standi með íbúum sínum og taki skýra afstöðu í málinu.
Góðar fréttir berast líka frá Suðurlandi í dag, næstkomandi sunnudag, 11. febrúar munu Sól á Suðurlandi og Náttúruverndarsamtök Suðurlands efna til fundar gegn áformum Landsvirkjunar um þrjár virkjanir í Neðri hluta Þjórsár. Nánar má lesa um fundinn á vef Landverndar.
Það er greinilegt að allar þær afleiðingar sem fyrirhugað álver í Helguvík og stækkun álvers í Straumsvík munu hafa á landið. Upp hafa risið hóparnir Sól í Straumi, Sól á Suðurnesjum og Sól á Suðurlandi sem allir vekja athygli á þeim miklu umhverfisspjöllum sem þessi álversáform munu hafa. Fyrsti "Sólar" hópurinn var stofnaður í Hvalfirði og var þá skammstöfunin SÓL stytting á "samtök um óspillt land" í Hvalfirði. Samtök um óspillt land á Suðurnesjum fagna því að sólin festi rætur sínar svo víða, öll erum við að berjast fyrir þvi að álfyrirtæki fái ekki að leggja undir sig þá ósnertu náttúru sem við eigum í okkar nánasta umhverfi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 6. febrúar 2007
Skynsamlegt
Það er margt sem bendir til þess að það kunni að vera skynsamlegt að fresta (í það minnsta) stóriðjuframkvæmdum um nokkur ár. Þar má t.a.m. nefna eftirfarandi fjögur atriði.
1) Verkefnisstjóri djúpborunarverkefnisins telur að djúpborunin kunni að skila af sér rafmagni eftir 6 - 9 ár. Nái vonir þar á bæ fram að ganga má e.t.v. útvega orku fyrir álver án þess að raska fleiri svæðum.
2) Náttúruverndargildi háhitasvæða hefur ekki verið metið með fullnægjandi hætti í rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Í 2. áfanga rammaáætlunarinnar stendur til að gera það. Ákvörðun um nýtingu jarðvarmasvæðanna áður en þær niðurstöður liggja fyrir eru ótímabærar.
3) Á Suðurnesjum er ekki mikið atvinnuleysi þrátt fyrir að herinn hafi nýlega farið.
4) Hagkerfið í heild sinni kallar ekki á frekari framkvæmdir með þeirri þenslu sem slíku fylgir.
Þessi skoðun Samfylkingarinnar um að fresta stóriðjuframkvæmdum virðist því vera mjög skynsamleg. Takk Ingibjörg.
Samfylkingin vill fresta stóriðjuframkvæmdum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 6. febrúar 2007
Okkar einkamál?
Hversu stórt mál er fyrirhuguð álversframkvæmd í Helguvík? Hverjum kemur hún við? Er hún einkamál íbúa Reykjanesbæjar? Er hún einkamál Garðbúa? Eða kannski einkamál stjórnvalda þessara bæjarfélaga?
Reykjanesbær og Garður fá fullt af peningum í kassann sinn, íbúar sveitarfélaganna fá peninga fyrir nýrri vatnsrennibraut í sundlaugina, fyrir nýjum gangbrautum, fá jafnvel styrki til tómstunda-og íþróttastarfs. Þetta virðist allt vera hið besta mál ef einungis er horft á þá peninga sem tvö bæjarfélög fá í vasann.
En viljum við vera svo þröngsýn? Viljum við bara hugsa um okkar eigin einkahagsmuni?
Ef horft er á fyrirhugaðar álversframkvæmdir í heild sinni lítur myndin svolítið öðruvísi út. Ef álver verður byggt í Helguvík þarf að skaffa því raforku. Margir halda að við eigum svo mikla jarðvarmaorku úti á Reykjanesi hvort sem er, fullt af ónýttri orku, og það sé þá eins gott að gera eitthvað við hana. Jú við eigum þrjár jarðvarmavirkjanir á Reykjanesinu, en þær duga ekki til þess að skaffa næga orku fyrir álver. Álbræðsla er jú einn orkufrekasti iðnaður í heimi. Til þess að skaffa næga orku fyrir álver í Helguvík þurfum við að fara lengra út á skagann og bora í sundur Trölladyngjusvæðið, Hengilsvæðið, Austurengjar og Seltún í Krísuvík og kannski fleira?
Nú er miðað við 250.000 tonna álver í Helguvík, en eins og sjá má í Hafnarfirði, eru svo lítil álver ekki hagkvæm til lengdar. Hvaðan eigum við að fá orkuna þegar álverið í Helguvík þarf að stækka eða annars fara?
Svo þegar búið er að bora í sundur hin ósnortnu víðerni Reykjanesskagans, þá þarf að leggja yfir þau 30 metra háar háspennulínur frá öllum virkjununum yfir til Helguvíkur.
Fórnin sem Garður og Reykjanesbær ætla að færa fyrir okkar hönd til þess að eignast peninga fyrir vatnsrennibraut og öðrum brýnum nauðsynjum er ansi stór. Reykjanesskaginn sem ósnortin víðerni og útivistarsvæði er lagður á borðið hjá Norðurál svo að á hann sé hægt að teikna borholur og háspennulínuskóg.
Og þá spyr ég aftur, er álverið í Helguvík einkamál Reykjanesbæjar og Garðs? Nei. Reykjanesbær og Garður eru búin að semja við Norðurál um lóð fyrir álverið, en þessi sveitarfélög eiga ekki ein að taka ákvörðun um það hvort Reykjanesskaginn verður lagður undir líka. Reykjanesskaginn snertir alla Suðurnesjabúa og þess vegna eigum við öll að fá að kjósa um það hvort álver og meðfylgjandi mannvirki séu velkomin.
Þarna er komin heildarmynd af álversframkvæmdunum: álver í Helguvík + nokkrar jarðvarmavirkjanir í viðbót á Reykjanesskaga (vonandi svona fallegar og lítið sjónmengandi eins og Hellisheiðarvirkjun!) + tvöföld háspennulína yfir skagann, meðfram Ósabotnavegi í Sandgerði (langþráður ferðamannavegur!) og yfir til Helguvíkur.
Svo er hægt að draga upp jafnvel stærri heildarmyndir af málinu. Hvað vilja Íslendingar fá mörg álver til landsins? Eitt álver á Húsavík, annað í Þorlákshöfn, eitt í Skagafirði, annað í Helguvík, og svo stækkun í Straumsvík. Hvað vilja Íslendingar fórna mikið af stórfenglegri náttúru sinni fyrir áliðnaðinn?
Og enn stærri mynd: Hvað hafa Íslendingar leyfi til að losa mikið af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið samkvæmt Kyoto bókuninni? Bara eitt álver myndi duga til þess að við förum yfir leyfileg losunarmörk.
Stóriðjustefnan er tímaskekkja. Eitthvað sem byrjað var að skipuleggja fyrir 50 árum. Hafa ekki einhverjar mikilvægar breytingar gerst á þessum tíma? Við sem erum fædd og uppalinn í nútímanum og ætlum okkur að byggja Ísland í framtíðinni viljum ekki sætta okkur við að ákvarðanir aftan úr fortíðinni fái að ráða okkar möguleikum í framtíðinni.
Fyrirhuguð álversframkvæmd í Helguvík snertir ekki bara hagsmuni tveggja bæjarfélaga, hún snertir alla Suðurnesjabúa, alla Íslendinga, og jafnvel alla jarðarbúa. Reynum að víkka sjóndeildarhringinn aðeins og hætta að hugsa bara um hagsmuni tveggja peningakassa til næstu 5-10 ára.
Guðbjörg R. Jóhannesdóttir
Miðvikudagur, 31. janúar 2007
Nóg að gera í Helguvík!
Í Morgunblaðinu í dag er skýrt frá því að nú sé farið að landa meginhluta af því flugvélaeldsneyti sem notað er á Keflavíkurflugvelli í Helguvíkurhöfn. Þetta er mjög jákvæð þróun þar sem olíubílum á Reykjanesbrautinni mun fækka um 3500 stykki og Reykjaneshöfn mun fá auknar tekjur.
"Við vonum að þessi nýju umsvif muni bæta okkur upp það tekjutap sem við urðum fyrir við brottför varnarliðsins" segir Pétur Jóhannson hafnarstjóri.
Nú þegar er búið að úthluta lóðum á fyrirhuguðu iðnaðarsvæði í Helguvík og fyrstu fyrirtækin komin. Nálægðin við flugvöllinn og höfnina skapar góð tækifæri og að sögn Péturs er mikil uppbygging framundan.
Þá er bara stóra spurningin: Þurfum við álver í Helguvík til þess að þessi uppbygging geti átt sér stað? Þurfum við álver til þess að fá aukinn innflutning og viðskipti í gegnum höfnina? Mér sýnist að þetta gangi bara ágætlega þótt langt sé í land með álverið.
Við höfum flugvöllinn og endalaus tækifæri til uppbyggingar í tengslum við hann, notum þessi tækifæri! Hættum að hugsa um álver og setjum alla okkar krafta í þau fjölmörgu atvinnutækifæri sem eru allstaðar í kringum okkur.
Á Austurlandi voru helstu rökin fyrir byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði þau að atvinnuástand og byggðarþróun væru í molum. Fólk flúði að austan í stórum straumum, ef því á annað borð tókst að selja húsin sín, sem voru orðin svo ódýr vegna þess að enginn vildi flytja þangað.
Á Suðurnesjum eru þessi rök engan vegin viðeigandi. Uppbygging hefur verið svakaleg hérna síðustu árin. Íbúum hefur fjölgað og ný störf skapast á hverju ári. Atvinnuástandið er gott og hér er gott að búa. Hvaða ástæðu höfum við til þess að fórna Reykjanesskaganum, frábæru atvinnutækifæri í ferðaþjónustu, fyrir álver sem engin þörf er á?
Guðbjörg R. Jóhannesdóttir
3.500 olíubílar af brautinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |