Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Þriðjudagur, 18. september 2007
Eitt í dag og annað á morgun???
Það er magnað hvernig Landsnet lagar málflutning sinn að aðstæðum hverju sinni. Hvað er satt og hvað er logið? Er eitthvað satt?
Þann 13. febrúar s.l. var haft eftir framkvæmdastjóra Landsnets, í stórri fyrirsögn í Morgunblaðinu, að aðeins loftlínur tryggja fullt afhendingaröryggi fyrir álver, sjá hér.
Þetta var sagt þegar Sandgerði hafði hafnað háspennulínum um Ósabotna, sjá fundargerð bæjarstjónar 7. febrúar.
En þrátt fyrir hræðsluáróður Landsnets um að "aðeins loftlínur tryggja fullt afhendingaröryggi fyrir álver" og ítrekaðar heimsóknir til sveitarstjórnar stóð Sandgerði við sitt, sjá fundargerð bæjarstjónar 14. mars.
Þar með var ljóst að orkan yrði að fara með jarðstrengjum. Og þá var vandamálið um afhendingaröryggi úr sögunni.
Er það von að maður spyrji, hvað er satt? hvað er logið? er eitthvað satt?
Fráleitt að tala um að forsendur álvers í Helguvík hafi breyst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 25. júní 2007
Ályktun frá Sólunum þremur
Í kvöld var haldin kynningarfundur í Þjórsárveri þar sem kynntar voru tvær tillögur að aðalskipulagi Flóahrepps. Tillögurnar voru eins að öllu leyti nema önnur var sýnd með stíflumannvirkjum og lóni Urriðafossvirkjunar ásamt svæðum fyrir vinnubúðir og þjónustumannvirki vegna virkjunarinnar.
Sólirnar þrjár í Straumi, á Suðurlandi og á Suðurnesjum sendu frá sér eftirfarandi ályktun í tilefni fundarins:
Sól á Suðurlandi, Sól í Straumi og Sól á Suðurnesjum fagna samþykkt hreppsnefndar Flóahrepps frá þrettánda júní 2007, um að hafa Urriðafossvirkjun ekki inni á aðalskipulagi sveitarfélagsins. Samþykktin er mikil hvatning til þeirra sem vilja verja náttúruna við Þjórsá og hindra að orka þaðan verði seld til stóriðju.
Sólirnar þrjár telja viðbrögð Landsvirkjunar við ákvörðun hreppsnefndar um drög að skipulagstillögu án virkjunar ámælisverð. Landsvirkjun gat eins og aðrir hagsmunaaðilar komið með athugasemdir sínar við auglýsta tillögu hreppsnefndar og virt um leið lýðræðislegar viðurkenndar aðferðir. Óeðlilegt er að skipulagstillögurnar séu nú orðnar tvær eftir heimsókn Landsvirkjunar í Flóann.
Sól á Suðurlandi, Sól í Straumi og Sól á Suðurnesjum vilja ekki trúa því að hreppsnefnd Flóahrepps sé boðið að selja náttúruperlur á svæðinu fyrir opinberar framkvæmdir eða þjónustu, hvað þá að hreppsnefndin gangi að slíkum afarkostum. Flóamenn eiga rétt á almannaþjónustu án þess að þurfa að greiða hana slíku verði. Landsvirkjun getur varla haft umboð ríkisins til þess að gera Flóamönnum gylliboð um fjármuni almennings. Við treystum því að hreppsnefnd Flóahrepps standi með þjóðinni í baráttunni fyrir náttúru landsins og jafnræði þegnanna.
Sól á Suðurlandi, Sól í Straumi og Sól á Suðurnesjum
Fjölmenni á kynningarfundi í Þjórsárveri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 9. júní 2007
Engin vissa um álver í Helguvík
Margir virðast halda að það sé alveg öruggt mál að álverið í Helguvík verði að veruleika, jafnvel fólk sem er þeirrar skoðunar að álver sé ekki endilega besta lausnin fyrir Suðurnesin hefur gefist upp fyrirfram vegna þess að "það er bara búið að ákveða þetta og ekkert við því að gera."
Og auðvitað hafa forsvarsmenn framkvæmdanna gert allt til þess að viðhalda þessari trú fólksins með því að skrifa undir eins marga samninga og hægt er og lýsa því yfir að framkvæmdir muni hefjast í lok þessa árs.
En nú höfum við það svart á hvítu:
"Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að mikilvægt sé að stjórnmálamenn, orkufyrirtæki og almenningur geri sér grein fyrir því, að nýgerður orkusölusamningur Orkuveitu Reykjavíkur (OR) við Norðurál vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík sé ekki ávísun á að framkvæmdir hefjist þar. Enn séu margir endar óhnýttir, svo sem umhverfismat og skipulagsmál." (mbl.is 7.júní)
Það er nefnilega annað sem fólk virðist gleyma í þessu máli, og það eru þau umhverfisáhrif sem verða af þeim virkjunum sem þarf til þess að veita orku í álverið. Þrjár nýjar virkjanir á Reykjanesinu og tilheyrandi háspennulínur yfir skagann þverann munu eyðileggja svæði sem er einstakt á heimsvísu og er frábært útivistarsvæði við bæjardyr Suðurnesjabúa og höfuðborgarbúa.
Svo vill það líka gleymast að lóðin sem Garður og Reykjanesbær hafa útvegað Norðuráli er tvöföld, þar er semsagt gert ráð fyrir því að álverið verði tvöfalt líka. 250.000 tonna álver er ekki endanleg niðurstaða, lóðin gerir ráð fyrir 500.000 tonnum og þess vegna verðum við að gera ráð fyrir því líka. Viljum við risaálver inn í bæinn okkar? Hvar eigum við að fá orkuna í 500.000 tonnin? Úr Brennisteinsfjöllum kannski?
Ef okkur líst ekki á þessi áform verðum við að láta í okkur heyra og ekki samþykkja það þegjandi og hljóðalaust að "það sé bara búið að ákveða þetta"
Þriðjudagur, 5. júní 2007
Sólirnar skora á umhverfisráðherra
Í dag kl. 14:00 fóru fulltrúar Sólar í Straumi, Sólar á Suðurnesjum og Sólar
á Suðurlandi á fund Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra í Alþingishúsinu og
afhentu henni sameiginlega áskorun frá samtökunum.
Við þetta tækifæri færðu gestirnir Umhverfisráðherra þrjú sólblóm, eitt frá
hverjum samtökum og óskuðu henni velfarnaðar í nýju starfi.
Áskorunin fer hér á eftir:
Kæra Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra,
Við óskum þér til hamingju með embætti umhverfisráðherra og óskum þér velfarnaðar í nýju starfi.
Með bréfi þessu viljum við skora á þig að fela stofnunum þínum, Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun, að draga fram og kynna fyrir almenningi heildarmynd áforma stóriðjufyrirtækja, orkufyrirtækja og orkuflutningafyrirtækja á suður- og suðvesturlandi.
Aðgengileg og skýr heildarmynd af áformunum er forsenda þess að lýðræðisleg og upplýst umræða geti farið fram á meðal landsmanna.
Allir Íslendingar eiga hagsmuna að gæta en sérstaklega þó íbúar þeirra svæða sem um ræðir.
Eftir að heildarmyndin hefur verið dregin upp og víðtæk umræða og kynning hefur farið fram teljum við eðlilegt að íbúar á svæðinu fái tækifæri til þess að taka afstöðu til málsins.
f.h. Sólar í Straumi
Pétur Óskarsson
f.h. Sólar á Suðurnesjum
Guðbjörg R. Jóhannesdóttir
f.h. Sólar á Suðurlandi
Kólbrún Haraldsdóttir
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Þriðjudagur, 22. maí 2007
Ný ríkisstjórn, náttúruvernd og lýðræði
Nú lítur allt út fyrir að ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sé að verða að veruleika. Það verður spennandi að sjá hvaða stefnu þessi verðandi ríkisstjórn mun taka varðandi náttúruvernd og lýðræði. Fyrir kosningar boðaði Samfylkingin stóriðjuhlé og opnara lýðræði, mun flokkurinn standa við þetta þegar á hólminn er komið?
Mun náttúra Reykjanesskagans fá að njóta vafans, eða verður henni fórnað á einu bretti fyrir orkuöflun vegna álvers í Helguvík?
Munu íbúar á Suðurnesjum fá að taka meðvitaða og upplýsta ákvörðun um það hvort þeir vilji fá álver í Helguvík með öllu sem því fylgir eða munu ráðamenn í Reykjanesbæ og Garði fá að halda áfram að keyra málið í gegn óáreittir?
Náttúrufar Reykjanesskagans er einstakt á heimsvísu og þar liggja einstök tækifæri til uppbyggingar ferðaþjónustu og útivistar bæði fyrir erlenda ferðamenn sem og íbúa Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins. Sól á Suðurnesjum hvetur næstu ríkisstjórn til þess að vernda einstaka náttúru Reykjanesskagans en fórna henni ekki fyrir erlenda stóriðju án þess að hugsa málið vel og vandlega. Við höfum nægan tíma.
Frestun á uppbyggingu álvers í Helguvík yrði bara til góðs, þá gætum við tekið upplýsta ákvörðun sem byggði á áætlunum um náttúruvernd og nýtingu, og hver veit nema innan ekki svo margra ára verði komnir nýjir og betri kostir í orkuöflun sem byggjast á því að bora dýpra í stað þess að fara inn á ný svæði á Reykjanesskaganum með borinn og eyðileggja þar með aðra möguleika til nýtingar á þessari einstöku náttúruperlu.
Fimmtudagur, 10. maí 2007
Umræða um lýðræði mikilvæg
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 6. maí 2007
Opinn fundur um lýðræði
Föstudagur, 27. apríl 2007
Bréf til íbúa í Vogum
Í gær sendi Sól á Suðurnesjum eftirfarandi bréf til allra íbúa í Vogum:
Kæri íbúi Voga,
Bú stendur yfir undirbúningur vegna hugsanlegs álvers í Helguvík. Á næstunni verða teknar ákvarðanir um hvernig orkuflutningum skuli háttað. Kortið á bakhlið þessa bréfs sýnir frumhugmyndir Landsnets í þeim efnum. Eins og sjá má yrðu háspennulínurnar að verulegu leyti í landi Voga.
Náttúra Reykjanesskagans er einstök á heimsvísu, í skaganum liggja einstök tækifæri til ferðaþjónustu og útivistar. Þar eiga íbúar í Vogum sannkallaða náttúruperlu í bakgarðinum. Myndinni hér til hliðar er ætlað að tjá upplifun náttúruunnenda ef áformin ná óhindrað fram að ganga.
Tekjur af hugsanlegu álveri í Helguvík myndu renna í sjóði Garðs og Reykjanesbæjar. Náttúruspjöllin og umhverfisraskið yrðu hinsvegar að mestu leyti í öðrum sveitarfélögum Reykjanesskagans. Ekki síst í Vogum.
Sandgerðingar höfnuðu háspennlínum um Stafnes og Ósabotna, m.a. vegna þess að þær myndu rýra gildi svæðisins og minnka möguleika sveitarfélagsins til fjölbreyttrar nýtingar. Í kjölfarið var ákveðið að leggja jarðstreng fré Fitjum til Helguvíkur, þrátt fyrir að áður hafi talsmenn framkvæmdanna haldið því fram að jarðstrengur uppfylli ekki kröfur álvers um afhendingaröryggi.
Það er hóflegt og málefnalegt að ætlast til þess að umhverfsraski sé haldið í lágmarki ef til þess kemur að álver rísi í Helguvík. Sól á Suðurnesjum hvetur íbúa í Vogum til þess að verja hagsmuni sína og hafna háspennulínum líkt og Sandgerðingar hafa þegar gert.
Sumarkveðja frá Sól á Suðurnesjum.
Með bréfinu fylgdi kort af hugmyndum Landsnets um línulagnir og mynd sem tjáir upplifun náttúruunnandans af því hvernig háspennulínur geta haft áhrif á fegurð svæðisins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.4.2007 kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 24. apríl 2007
Samfylkingin stóð við sitt
Í gær var orkusölusamningur milli Norðuráls og Hitaveitu Suðurnesja undirritaður. Fulltrúar Samfylkingarinnar í stjórn Hitaveitunnar lögðu það til á fundi í síðustu viku að undirritun yrði frestað, en tillaga þeirra var felld. Samfylkingin fær mikið hrós og klapp á bakið frá Sól á Suðurnesjum fyrir að reyna, það er frábært að einhver í stjórn HS hugsi um hagsmuni íbúanna.
Í sjónvarpsfréttum og útvarpsfréttum í gærkvöldi og í morgun var fjallað um málið.
Norðurál, Hitaveitunni og Reykjanesbæ er greinilega mikið í mun að skrifa undir sem mest af samningum til þess að reyna að koma í veg fyrir að íbúar Suðurnesja fari eitthvað að skipta sér af málinu. Íbúalýðræði er ekki efst á listanum hjá Sjálfstæðisflokknum. Stór mál eins og bygging álvers og tilheyrandi virkjana og línumannvirkja, eru keyrð í gegn á sem mestum hraða án þess að nokkrar upplýsingar liggi fyrir handa íbúum og nokkur umræða eigi sér stað þar sem íbúarnir geta haft eitthvað um málið að segja. Við eigum helst ekkert að vita um álverið og umhverfisáhrif þess fyrr en það er byrjað að byggja það. Þá verður of seint fyrir okkur að röfla.
Með eða á móti álveri, á ekki þessi stóra ákvörðun að liggja í höndum okkar íbúanna?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mánudagur, 23. apríl 2007
Mogginn heldur áfram að skamma Árna
Mogginn er óþreytandi í því að minna yfirvöld í Reykjanesbæ á mikilvægi
íbúalýðræðis. Í Reykjavíkurbréfinu á sunnudag segir m.a:
"Hugmyndum um þjóðaratkvæði um einstök stór mál eða atkvæðagreiðslu í
einstökum sveitarfélögum hefur að vísu verið misjafnlega tekið í flokkunum
en þó fer ekki á milli mála, að þær eiga vaxandi stuðningi að fagna í öllum
flokkum. Það verður t.d. erfitt fyrir bæjarstjórn Reykjanesbæjar að standa
frammi fyrir kjósendum sínum að þremur árum liðnum hafi ákvörðun verið tekin
um álver í Helguvík án þess að leggja hana undir atkvæði fólks á
Suðurnesjum. Og þótt bæjarstjórnin geti vísað til samninga, sem þegar hafi
verið gerðir við Norðurál, hafa talsmenn hennar engu svarað þeim ábendingum,
að það sé einfaldlega hægt að taka upp samningana við Norðurál og óska eftir
stuðningi þess við að atkvæðagreiðsla fari fram. Það væri afar óskynsamlegt
fyrir Norðurál að hafna slíkum óskum bæjarstjórnar Reykjanesbæjar."