Samfylkingin stóð við sitt

Í gær var orkusölusamningur milli Norðuráls og Hitaveitu Suðurnesja undirritaður. Fulltrúar Samfylkingarinnar í stjórn Hitaveitunnar lögðu það til á fundi í síðustu viku að undirritun yrði frestað, en tillaga þeirra var felld. Samfylkingin fær mikið hrós og klapp á bakið frá Sól á Suðurnesjum fyrir að reyna, það er frábært að einhver í stjórn HS hugsi um hagsmuni íbúanna.

Í sjónvarpsfréttum og útvarpsfréttum í gærkvöldi og í morgun var fjallað um málið.

Norðurál, Hitaveitunni og Reykjanesbæ er greinilega mikið í mun að skrifa undir sem mest af samningum til þess að reyna að koma í veg fyrir að íbúar Suðurnesja fari eitthvað að skipta sér af málinu. Íbúalýðræði er ekki efst á listanum hjá Sjálfstæðisflokknum. Stór mál eins og bygging álvers og tilheyrandi virkjana og línumannvirkja, eru keyrð í gegn á sem mestum hraða án þess að nokkrar upplýsingar liggi fyrir handa íbúum og nokkur umræða eigi sér stað þar sem íbúarnir geta haft eitthvað um málið að segja. Við eigum helst ekkert að vita um álverið og umhverfisáhrif þess fyrr en það er byrjað að byggja það. Þá verður of seint fyrir okkur að röfla.

Með eða á móti álveri, á ekki þessi stóra ákvörðun að liggja í höndum okkar íbúanna?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Örvar Þór Kristjánsson

Málið er einfalt.  Vitna í bloggvin sem skrifaði eftirfarandi:

"Álver í Helguvík var eitt af kosningamálum hér í sveitastjórnarkosningunum í fyrra. Í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ fyrir núverandi kjörtímabil kemur fram undir atvinnumál: "Tilbúin svæði vegna uppbyggingar í Helguvík gera nú Norðuráli kleift að velja Helguvík hiklaust fram yfir aðra kosti til áliðnaðar sem getur þýtt um 900 ný störf í samfélagið. Nú hefur verið gengið frá hafnar- og lóðarsamningum við Norðurál." Þannig að það er búið að kjósa um þetta mál... Sjálfstæðisflokkurinn fékk yfirburða kosningu.

Annars er þetta spurning um traust.  Þeir aðilar sem eru að leggja vinnu til þess að koma Álverinu í Helguvík vilja okkur íbúunum ekkert nema gott.  Það er hægt að treysta því að unnið verður eftir lögum og reglum.  Umhverfið mun ekki skaðast.  Þessi "náttúruperla" í Helguvíkinni er tilvalinn staður fyrir Álver.

Íbúalýðræðið gekk í gegn í bæjarstjórnar kosningunum. 

Örvar Þór Kristjánsson, 24.4.2007 kl. 13:43

2 Smámynd: Valgerður Halldórsdóttir

Harma að tillaga Samfylkingarinnar var felld - Ekki ætla ég að efast um að farið verði eftir lögum og reglum, hinsvegar er ekki hægt að horfa framhjá því að álver menga - og umhverfið skaðast. Forstjóri Alcans á Íslandi  t.a.m. sagði nokkuð oft í aðdraganda álverskosninganna í Hafnarfirði  að mengun myndi aukast ef af yrði stækkun álverkssmiðjunnar í Straumsvík.

Fjölmiðlar um allan heim flytja okkur fréttir af ráðstefnum vísindamanna þar sem kynntar hafa verið niðurstöður þeirra sem benda til alvarlegra áhrifa gróðurhúsalofttegunda m.a. á hitastig jarðar, hækkað yfirborð sjávar og veðurfar víða um heim - en við látum eins og þetta komi einhverju einu bæjarfélagi við. 

Álver í Helguvík, Hafnarfirði, Húsavík, Þorlákshöfn og ..og.. og  ........ kemur okkur öllum við! Sem betur fer eigum við aðra valkosti - Suðurnesjamenn líka!

Valgerður Halldórsdóttir, 24.4.2007 kl. 19:02

3 Smámynd: Sól á Suðurnesjum

Ég velti því fyrir mér hvort að allir þeir sem kusu Sjálfstæðisflokkinn í sveitarstjórnarkosningunum í fyrra hafi kosið hann einungis til þess að fá álver í Helguvík. Margir hafa eflaust kosið Sjálfstæðisflokkinn af einhverjum allt öðrum ástæðum. Sjálfstæðismenn hafa gert marga góða hluti í Reykjanesbæ á síðustu árum og margar góðar ástæður fyrir því að fólk hefur séð hag sinn í að þeir héldu áfram í bæjarstjórn. Mig grunar að það séu mjög margir íbúar Reykjanesbæjar sem hafa ekki myndað sér upplýsta skoðun um það hvort að álver sé góður kostur fyrir Reykjanesbæ og Suðurnesin öll. 

Ég held líka að fyrir kosningarnar hafi ekki farið fram upplýst umræða um allar hliðar málsins; um alla hugsanlega kosti og galla. Fór fram umræða um mengunarmál? Fór fram umræða um virkjanamál og hvað væri réttast að nýta náttúru Reykjanesskagans í? Fór fram umræða um háspennulínur? Eða fór kannski aðallega fram umræða um þúsund störf?

Álver í Helguvík er stórmál. Það mun hafa áhrif á öll sveitarfélögin á Suðurnesjum til langrar framtíðar. Eigum við að dæla upp allri orku sem hægt er að virkja á Reykjanesskaganum á næstu 50 árum til þess að veita orku í 250.000 tonna álver sem er gert ráð fyrir að stækka (lóðin undir álverið er tvöföld), eða eigum við taka því rólega og sjá hvaða hugmyndir næstu kynslóðir á eftir okkur hafa um hvað skal nýta orkuna í? 

Þegar tekin er ákvörðun um svona mál sem snertir okkur öll og framtíðarkynslóðir líka, þá finnst mér eðlilegt að sú ákvörðun sé tekin þannig að full sátt ríki um hana og að allir sem málið snertir hafi gert upp hug sinn eftir að hafa fengið allar upplýsingar í hendurnar og fræðslu um málið frá báðum hliðum.

Ef það á á annað borð að vera að tala um íbúalýðræði eins og bæði bæjarstjórnin í Garði og Reykjanesbæ hafa gert, hvenær á þá að nota þennan valkost ef ekki þegar um svona stórt mál er að ræða? Íbúakosning myndi gera það að verkum að íbúarnir yrðu að kynna sér málið til hlítar og taka upplýsta afstöðu. 

Hvort sem þú ert með eða á móti álveri, eða hefur ekki tekið afstöðu þá er það sjálfsagður réttur þinn að fá að kynna þér málið og koma þinni skoðun á framfæri.  

Sól á Suðurnesjum, 25.4.2007 kl. 22:00

4 Smámynd: Örvar Þór Kristjánsson

Það verður að vera málefnanleg umræða.  Frá öllum hliðum.  Þá spyr ég er þetta málefnanlegt hjá ykkur? 

Örvar Þór Kristjánsson, 26.4.2007 kl. 22:47

5 Smámynd: Sól á Suðurnesjum

Já, þetta er málefnalegt.

Guðbjörg

Sól á Suðurnesjum, 27.4.2007 kl. 18:16

6 Smámynd: Örvar Þór Kristjánsson

Alls ekki og það er rekið ofaní ykkur þarna í greininni.  Ef þessi samtök ykkar eiga að vera tekin alvarlega verðið þið að temja ykkur vandvirk og málefnanleg vinnubrögð.  Félagi minn úr Vogunum spjallaði við mig í dag og var ekki par sáttur með fyrirætlanir og sagði mér að mikið "umhverfisslys" væri í vændum.  Sem betur fer gat ég bent honum á þessa grein á vf.is svo fljótlega var komið annað hljóð í skrokkinn.  Það er sjálfsagt að þið berjist fyrir ykkar sannfæringu en gerið það heiðarlega.  Annars kæmi mér ekki á óvart að þessi fámenni hópur á suðurnesjunum fengi sínu fram um íbúakosningar.  Því miður.  Hugga mig við það að hér á Suðurnesjunum býr að mestu skynsamt fólk sem mun kjósa rétt.

Góðar stundir.

Örvar Þór Kristjánsson, 27.4.2007 kl. 19:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband