Morgunblaðið styður kröfu Sólar á Suðurnesjum um kosningu!

Leiðari Morgunblaðsins í dag (14. janúar) gerir fund Sólar á Suðurnesjum á föstudagskvöld og kröfu fundarins um kosningu um álver í Helguvík að umfjöllunarefni sínu. Þar segir um fundinn: "Þar kom fram krafa um að efnt yrði til kosningar á Suðurnesjum um þau áform [um álver í Helguvík]. Þetta er auðvitað sjálfsagt mál". 

Í leiðaranum kemur fram að Morgunblaðið sé þeirrar skoðunar að "íbúar í viðkomandi sveitarfélögum eigi að taka ákvarðanir um meiri háttar mál í almennri atkvæðagreiðslu innan viðkomandi byggðarlags". Það er mikið ánægjuefni að upp sé að vakna umræða um opið lýðræði á Íslandi. Eins og bent er á í leiðaranum hefur almenningur í dag aðgang að sömu upplýsingum og kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum og þess vegna ætti það að vera mjög eðlilegt að ákvarðanir séu teknar í almennum atkvæðagreiðslum þegar um stór mál er að ræða.

Eins og Ólafur Páll Jónsson, heimspekingur bendir á í grein sinni "Prútt eða rök og réttlæti: Tvær hugmyndir um lýðræði" hafa á síðustu áratugum komið fram nýjar hugmyndir um lýðræði, hugmyndir um svokallað rökræðulýðræði. Þar er gert ráð fyrir mun meiri þátttöku almennings í ákvarðanatöku heldur en í hinu hefðbundna fulltrúalýðræði. Fyrir áhugasama má benda á að grein Ólafs er að finna á hér.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar er ekki sammála leiðarahöfundi Morgunblaðsins um að þörf sé á kosningum þegar um stór mál eins og byggingu álvers og virkjana er að ræða. Á baksíðu Morgunblaðsins í dag segir hann: "Ekki verður gengið til íbúakosninga á Suðurnesjum vegna fyrirhugaðs álvers Norðuráls í Helguvík" Árni segir að fyrirhugaðar kosningar Hafnfirðinga um stækkun í Straumsvík kalli ekki á sambærilega kosningu á Suðurnesjum vegna þess að í Hafnarfirði séu "áhyggjur manna fyrst og fremst vegna nálægðar við íbúabyggð sem ekki er í okkar tilfelli" Árni virðist vera að gleyma því að umhverfisáhrif vegna álversins verða líka vegna virkjana og háspennulína á Reykjanesskaganum. Þessi umhverfisáhrif snerta  íbúa allra sveitarfélaga á Suðurnesjum og þess vegna þurfa allar sveitarstjórnirnar að taka afstöðu til kosninga.

"Hvers vegna skyldu menn vera á móti lýðræði? Hvers vegna skyldu kjörnir fulltrúar vera andvígir því að fólkið sjálft fái að segja sitt?" spyr leiðarahöfundur Morgunblaðsins. Einu rökin sem honum dettur í hug eru þau að sá almenningur sem myndi kjósa hefði ekki nægilegar upplýsingar undir höndum. En þar sem við höfum í nútímasamfélagi öll aðgang að sömu upplýsingum er ekkert því til fyrirstöðu að kjörnir fulltrúar kanni vilja almennings áður en stórar ákvarðanir um framtíð samfélagsins eru teknar.

Sól á Suðurnesjum hvetur alla íbúa Reykjaness til að taka virkan þátt í lýðræðinu og krefjast þess að fá að nýta rétt sinn til kosninga um stór mál!

 


mbl.is Ekki kosið á Suðurnesjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnbjörn Eiríksson

Árni Sigfússon bæjarstjóri hefur ekki umboð frá íbúum Suðurnesja nema Reykjanesbæjar þetta varðar önnur bæjarfélög hér á Suðurnesjum ekki síður.

Arnbjörn Eiríksson, 14.1.2007 kl. 22:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband