Landsstjórinn segir nei

Árni Sigfússon er bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Samt  segir hann í Morgunblaðinu þann 13. janúar að ekki verði kosið um stóriðjuáform á Suðurnesjum. En er það Árna að ákveða það? Framkvæmdirnar sem bæjarstjórinn vill ekki að kosið verði um eru að megninu til í landi Garðs, Sandgerðis, Grindavíkur og Hafnarfjarðar en minnst af mannvirkjunum eru í því landi sem umboð bæjarstjórans í raun og veru nær til. Árni hefur aðeins umboð til þess að tala fyrir hönd Reykjanesbæjar. Samt sem áður lætur hann eins og hann sé full fær um að taka ákvarðanir, einn og óstuddur, fyrir hönd allra á Reykjanesskaganum.
Aðdragandinn að útspili Árna er fundur Sólar á Suðurnesjum þann 12. janúar síðast liðinn. Tilgangur fundarins var að kynna fyrir Suðurnesjamönnum og öðrum Íslendingum umsvif yfirvofandi stóriðjuframkvæmda með álveri í Helguvík og tilheyrandi virkjunum víðsvegar á Reykjanesskaganum. Að frátöldum íbúafundi sem sveitarstjórnin i Garði stóð fyrir hefur lítil sem engin kynning farið fram á meðal íbúa svæðisins en engu að síður er unnið að framvindu málsins af fullum krafti. Íbúar sem málið varðar hafa ekki fengið neinar haldgóðar upplýsingar um stöðu mála og áformin í heild sinni, enda hafa allar umræður farið fram og allar ákvarðanir verið teknar fyrir luktum dyrum í bakherbergjum landsstjórans sjálfskipaða.
Markmið Sólar á Suðurnesjum eru þrjú: 1) Að varðveita náttúrufar og landslagsheildir Reykjanesskagans. 2) Að opna fyrir umræðu meðal almennings um áhrif álvers og orkumannvirkja á umhverfi og samfélag.  3) Að knýja fram kosningar um þessi stórfelldu áform sem varða öll sveitarfélögin á Reykjanesskaganum. Reykjanesbær og Garður hafa samkvæmt yfirlýsingu gert samning við álrisa um staðsetningu á álverksmiðju í Helguvík. Sól á Suðurnesjum krefst kosninga um málið en  landstjóri segir nei því hann vill ekki ganga gegn gerðum samningum. Á heimasíðu Reykjanesbæjar hvetur bæjarstjórinn bæjarbúa til að hafa áhrif á stefnumótun og framkvæmdaröð í bæjarfélaginu, en þegar hann er inntur eftir þessu loforði sínu gengur hann engu að síður á bak orða sinna. Siðferðileg skylda hans ætti að vega þyngra gagnvart þegnum bæjarins en gagnvart erlendu stórfyrirtæki, en svo virðist ekki vera.
    Umhverfisraskið sem fylgja myndi álveri í Helguvík væri gríðarlegt. Til stendur að mæta orkuþörfinni með nokkrum nýjum jarðvarmavirkjunum víðsvegar á Reykjanesskaganum, í Krýsuvík, við Sandfell og á Trölladyngjusvæðinu. Háspennulínur myndu liggja eftir skaganum þvert og endilangt, og langþráður Ósabotnavegur yrði línuvegur ef áformin munu ná fram að ganga. Það liggur ekki einu sinni fyrir hvort nýtileg orka sé til staðar, en samt þykir ekki tímabært að spyrja íbúa Suðurnesja hvort þeir kæri sig um þessa afdrifaríku framkvæmd. Hafnfirðingar einir fá að kjósa um stækkun álversins í Straumsvík jafnvel þó virkjanir vegna þeirra framkvæmda séu í öðrum landshluta, og því ætti  kosning að vera augljós kostur fyrir Suðurnesjamenn, þar sem verksmiðja og virkjanir eru í þeirra landi. Bæjarstjóri Reykjanesbæjar er þó ekki þeirrar skoðunar enda finnst honum betra að lágmarka upplýsingaflæðið til þegna sinna. Það er gömul saga og ný að upplýsingar og upplýst umræða er jafnan óhagstæð framvindu mála og áformum þegar áformin eru í eðli sínu óréttlætanleg. Skyldu hinar sveitarstjórnirnar sem málið varðar vera hliðhollar vinnubrögðum einræðis og leyndar?

Elvar Geir Sævarsson

 

 Birtist í Fréttablaðinu fös 27.janúar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband