Yfirlýsing frá fundi Sólar á Suðurnesjum í Grindavík 13. febrúar.

Opinn fundur Sólar á Suðurnesjum hvetur bæjarstjórnir Grindavíkur og Voga á Vatnsleysustönd til þess að hafna tillögum Landsnets um háspennulínuvæðingu Reykjanesskagans. Ótækt er að orkuflutningamannvirki verði látin skera Reykjanesskagann endilangt og hjarta fólkvangsins þvert. Sandgerðisbær hefur þegar hafnað tillögum Landsnets um háspennulínur þvert yfir Stafnes um Ósabotna vegna þeirra umhverfisspjalla sem slík mannvirki myndu valda. Háspennulínur skerða og koma í veg fyrir aðra landnýtingu.

Reykjanesskaginn hefur jarðfræðilega sérstöðu á heimsvísu þar sem þar er að finna eina staðinn á jörðinni þar sem berlega má sjá hvar úthafshryggur gengur á land með eldsumbrotum og jarðhræringum. Jarðfræðileg sérstaða, ásamt nálægð við Bláa Lónið, flugvöllinn og höfuðborgina skapar einstök tækifæri fyrir ferðaþjónustuna. Stóriðjuáform samræmast illa langtímahagsmunum ferðaþjónustunnar. Gríðarleg tækifæri eru til útivistar á Reykjanesskaganum en háspennulínur myndu rýra útivistargildi hans til muna.

Lítil sem engin umræða hefur farið fram um málið á meðal íbúa Suðurnesja og þrátt fyrir skiptar skoðanir íbúa er unnið að framvindu málsins af fullum krafti. Áform um álver í Helguvík snerta íbúa allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum þar sem virkjanir með tilheyrandi umhverfisraski myndu rísa í landi Grindavíkur, Voga og Hafnarfjarðar, háspennulínur myndu fara um þessi sömu sveitarfélög auk Sandgerðis, og álverið sjálft yrði staðsett í Garðinum og Reykjanesbæ.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband