Landsstjórinn segir nei

Árni Sigfússon er bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Samt  segir hann í Morgunblaðinu þann 13. janúar að ekki verði kosið um stóriðjuáform á Suðurnesjum. En er það Árna að ákveða það? Framkvæmdirnar sem bæjarstjórinn vill ekki að kosið verði um eru að megninu til í landi Garðs, Sandgerðis, Grindavíkur og Hafnarfjarðar en minnst af mannvirkjunum eru í því landi sem umboð bæjarstjórans í raun og veru nær til. Árni hefur aðeins umboð til þess að tala fyrir hönd Reykjanesbæjar. Samt sem áður lætur hann eins og hann sé full fær um að taka ákvarðanir, einn og óstuddur, fyrir hönd allra á Reykjanesskaganum.
Aðdragandinn að útspili Árna er fundur Sólar á Suðurnesjum þann 12. janúar síðast liðinn. Tilgangur fundarins var að kynna fyrir Suðurnesjamönnum og öðrum Íslendingum umsvif yfirvofandi stóriðjuframkvæmda með álveri í Helguvík og tilheyrandi virkjunum víðsvegar á Reykjanesskaganum. Að frátöldum íbúafundi sem sveitarstjórnin i Garði stóð fyrir hefur lítil sem engin kynning farið fram á meðal íbúa svæðisins en engu að síður er unnið að framvindu málsins af fullum krafti. Íbúar sem málið varðar hafa ekki fengið neinar haldgóðar upplýsingar um stöðu mála og áformin í heild sinni, enda hafa allar umræður farið fram og allar ákvarðanir verið teknar fyrir luktum dyrum í bakherbergjum landsstjórans sjálfskipaða.
Markmið Sólar á Suðurnesjum eru þrjú: 1) Að varðveita náttúrufar og landslagsheildir Reykjanesskagans. 2) Að opna fyrir umræðu meðal almennings um áhrif álvers og orkumannvirkja á umhverfi og samfélag.  3) Að knýja fram kosningar um þessi stórfelldu áform sem varða öll sveitarfélögin á Reykjanesskaganum. Reykjanesbær og Garður hafa samkvæmt yfirlýsingu gert samning við álrisa um staðsetningu á álverksmiðju í Helguvík. Sól á Suðurnesjum krefst kosninga um málið en  landstjóri segir nei því hann vill ekki ganga gegn gerðum samningum. Á heimasíðu Reykjanesbæjar hvetur bæjarstjórinn bæjarbúa til að hafa áhrif á stefnumótun og framkvæmdaröð í bæjarfélaginu, en þegar hann er inntur eftir þessu loforði sínu gengur hann engu að síður á bak orða sinna. Siðferðileg skylda hans ætti að vega þyngra gagnvart þegnum bæjarins en gagnvart erlendu stórfyrirtæki, en svo virðist ekki vera.
    Umhverfisraskið sem fylgja myndi álveri í Helguvík væri gríðarlegt. Til stendur að mæta orkuþörfinni með nokkrum nýjum jarðvarmavirkjunum víðsvegar á Reykjanesskaganum, í Krýsuvík, við Sandfell og á Trölladyngjusvæðinu. Háspennulínur myndu liggja eftir skaganum þvert og endilangt, og langþráður Ósabotnavegur yrði línuvegur ef áformin munu ná fram að ganga. Það liggur ekki einu sinni fyrir hvort nýtileg orka sé til staðar, en samt þykir ekki tímabært að spyrja íbúa Suðurnesja hvort þeir kæri sig um þessa afdrifaríku framkvæmd. Hafnfirðingar einir fá að kjósa um stækkun álversins í Straumsvík jafnvel þó virkjanir vegna þeirra framkvæmda séu í öðrum landshluta, og því ætti  kosning að vera augljós kostur fyrir Suðurnesjamenn, þar sem verksmiðja og virkjanir eru í þeirra landi. Bæjarstjóri Reykjanesbæjar er þó ekki þeirrar skoðunar enda finnst honum betra að lágmarka upplýsingaflæðið til þegna sinna. Það er gömul saga og ný að upplýsingar og upplýst umræða er jafnan óhagstæð framvindu mála og áformum þegar áformin eru í eðli sínu óréttlætanleg. Skyldu hinar sveitarstjórnirnar sem málið varðar vera hliðhollar vinnubrögðum einræðis og leyndar?

Elvar Geir Sævarsson

 

 Birtist í Fréttablaðinu fös 27.janúar


Hafnfirðingar kjósa, af hverju ekki Suðurnesjamenn?

Hafnfirðingar eru greinilega mjög ánægðir með að fá að taka þátt í stórum ákvörðunum bæjarfélagsins á lýðræðislegan hátt. 90% þeirra segjast munu taka þátt í kosningunum.

Svona ætti þetta auðvitað að vera í öllum sveitarfélögum og svona ætti þetta auðvitað að vera í landsmálum líka. Samfylkingarmaðurinn Björgvin G. Sigurðsson hefur verið að skrifa bæði í Morgunblaðið og Blaðið um að lýðræði á Íslandi ætti að vera mun opnara en það er. Það fyrirkomulag sem er á lýðræðinu hér á Íslandi í dag er að verða úrelt og við þurfum þess vegna að taka það til róttækrar endurskoðunar. Björgvin skorar á Árna Sigfússon, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, að endurskoða tillögu Sólar á Suðurnesjum um að kosið verði um álverið í Helguvík.

Árni tjáði okkur á þriðjudaginn að í þeim samningum sem hafa verið undirritaðir við Norðurál væru engir fyrirvarar um íbúakosningu og þess vegna kæmi hún ekki til greina ef standa ætti við samninga.

En samningurinn sem Reykjnesbær er búin að undirrita hefur einungis með þjónustu hafnarinnar og úthlutun og gerð lóðar við Helguvík að gera. Í þeim samning er ekkert um virkjana- og línumannvirki á Reykjanesskaganum talað og honum tilheyra fyrirvarar um niðurstöður af mati á umhverfisáhrifum, orkuöflun og löglega meðferð málsins.

Það ætti því ekki að vera neitt mál að leyfa Suðurnesjabúum að kjósa um það hvort þeir vilja að álversframkvæmdum í Helguvík verði leyft að spilla náttúruperlunni í bakgarðinum okkar, og halda alla gerða samninga um leið...eða hvað? Tilheyrir mati á umhverfisáhrifum ekki mat á samfélagsáhrifum? Þarf ekki að kanna hvaða áhrif framkvæmdirnar í heild sinni hafa á samfélagið og íbúa þess og hvort þeir kæra sig um þessi áhrif eða ekki?

Guðbjörg R. Jóhannesdóttir


Til hamingju Hafnfirðingar með lýðræðið!

Það er orðið nokkuð ljóst að Hafnfirðingar fá að kjósa um stækkun álvers í Straumsvík og óskum við þeim til hamingju með það. Það verður fróðlegt að sjá hvernig málin fara hér á Suðurnesjum. Fáum við að kjósa um málefni tengd hugsanlegum álversframkvæmdum í Helguvík og virkjunum á Reykjanesinu ? Er íbúalýðræðið raunverulegt hér á suðvesturhorninu eða bara orðaræða?

Thelma Björk Jóhannesdóttir


mbl.is 90% Hafnfirðinga telja líklegt að þeir taki þátt í kosningu um álver
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pacta sunt servanda?

Talsmenn og ÁrniHér má sjá Elvar og Guðbjörgu á fundi hjá Árna Sigfússyni bæjarstjóra Reykjanesbæjar. Elvar er að afhenda honum samantekt úr fjölmiðlum, en Árni heldur á yfirlýsingu frá Sól á Suðurnesjum. 

 

 

 

Allir sveitarstjórarnir tóku okkur vel. Í Grindavík var okkur boðið kaffi. Í Garðinum nammi. Í Reykjanesbæ fengum við yfirlýsingu til baka frá Árna með yfirskriftinni ,,Pacta sunt servanda" eða ,,Halda skal gerða samninga". Ég geri ekki ráð fyrir því að hann hafi verið að meina kosningaloforðið um íbúalýðræði.

Yfirlýsing Árna Sigfússonar:

Pacta sunt servanda - Til upplýsingar fyrir samtökin Sól á Suðurnesjum

Trúverðugleiki manna hefur jafnan verið metinn eftir því hvernig þeir standa við orð sín. Þeir sem ekki standa við gerða samninga eru að jafnaði ekki hátt skrifaðir og fáir vilja eiga viðskipti við slíka aðila. Mikilvægt er fyrir sveitarfélag að stjórnvöld þess standi vörð um trúverðugleika þess.

Aðilar sem leita til sveitarfélags um uppbyggingu á atvinnurekstri verða að geta treyst því að samningar sem þeir gera við til þess bær stjórnvöld í sveitarfélaginu standi.

Pacta sunt servanda-reglan hefur gilt og verið í heiðri höfð frá upphafi samfélags manna. Stjórnvöld í Reykjanesbæ standa við gefin loforð og gerða samninga. Það gildir jafnt um kosningaloforð og samninga sem gerðir eru við lögaðila.

Í undirrituðum samningum Reykjanesbæjar um lóð undir álver í Helguvík eru engir fyrirvarar um að málið skuli lagt undir sérstaka kosningu íbúa. Megin samningarnir, sem tengjast þjónustu hafnarinnar og úthlutun og gerð lóðar við Helguvík, voru samþykktir samhljóða í bæjarstjórn í maí í fyrra, stuttu fyrir bæjarstjórnarkosningar 2006. Þá höfðu verið gerðar tvær marktækar skoðanakannanir á meðal íbúa sem sýndu ótvíræðan stuðning við álver í Helguvík.

Engin tillaga kom fram um sérstaka íbúakosningu, engin bókun var gerð um það.

Samningar sem samþykktir voru nú í janúar 2007 ganga eingöngu út á að færa álverið norðar og fjær byggð. Það var samþykkt samhljóða í bæjarstjórnum Reykjanesbæjar og Sveitarfélagsins Garðs.

Samningnum tilheyra fyrirvarar um niðurstöður af mati á umhverfisáhrifum, orkuöflun og löglega meðferð málsins. Það ferli fer nú fljótlega af stað með vönduðum kynningum.

Það er ætlan stjórnenda Reykjanesbæjar að í kynningarferlinu framundan verði tryggt að öll sjónarmið fái að koma fram og verði metin  á sanngjarnan hátt í lýðræðislegu stjórnsýsluferli sem gildir lögum samkvæmt. 

 

 

 

Þetta hafði Blaðiðí  dag um málið að segja . 

arni


Bolti hjá þeim

Samtökin hafa nú fært sveitastjórum Voga, Sandgerðis, Grindavíkur, Garðs og Reykjanesbæjar yfirlýsingu og samantekt úr fjölmiðlum. Við setjum inn myndir af afhendingunni eins fljótt og kostur er, en sem stendur eru tæknilegir örðugleikar.

 


Náttúruvernd og kynslóðir framtíðarinnar

Rök náttúruverndarsinna eru oft fengin úr grein innan heimspekinnar sem nefnist siðfræði náttúrunnar. Þessi tegund siðfræði miðast að því að sýna fram á að manninum beri skylda til þess að taka siðferðilegt tillit til náttúrunnar. Á Heimspekivefnum má finna góða grein um náttúrusiðfræði, "Náttúran sem siðfræðilegt viðfangsefni" eftir Þorvarð Árnason.  

Mörgum finnst erfitt að skilja rök fyrir því að náttúran hafi siðferðilegt gildi. Af hverju ættum við að taka hagsmuni náttúrunnar fram yfir okkar eigin hagsmuni? Það er fáránlegt! Af þessum ástæðum eru náttúruverndarsinnum oft lýst sem rugludöllum sem faðma tré og elska hvali, en er alveg sama um menn.

Það gleymist að náttúruvernd snýst ekki bara um að vernda náttúruna, hún snýst líka um að vernda manninn. Ein af sterkustu hugmyndum náttúrusiðfræðinnar er hugmyndin um framtíðarkynslóðir. Samkvæmt henni ber okkur skylda til þess að vernda náttúruna og auðlindir hennar vegna þess að okkur ber skylda til þess að vernda hagsmuni þeirra kynslóða sem á eftir okkur koma. Út frá þessari hugmynd og öðrum hefur svo sprottið hugtakið um sjálfbæra þróun. Sjálfbær þróun er fólgin í því að uppfylla þarfir núlifandi fólks án þess að skerða möguleika komandi kynslóða á að uppfylla sínar þarfir. Á vef Umhverfisstofnunar má finna fróðleik um sjálfbæra þróun.

Hverjir verða möguleikar barnanna sem eru að alast upp á Suðurnesjum í dag til þess að nýta auðlindir sínar ef áform um álver í Helguvík og virkjanir á Reykjanesskaganum verða að veruleika? Ef við fáum álver þurfum við helst að nýta alla þá jarðvarmaorku sem finnst á skaganum.

Hvað gerist svo eftir 40 ár? Kemur þá upp sama staða í Helguvík og er í Straumsvík núna? Munu þá eigendur álversins segja íbúum Suðurnesja að þeir verði að virkja meira og stækka, eða fara?

Síðastliðið sumar lentu Suðurnesjabúar í áfalli. Herinn fór og eftir stóðum við með yfirvofandi atvinnuleysi. Sem betur fer varð áfallið miklu minna en við höfðum flest búist við, og í dag eru langflestir þeirra sem misstu vinnuna komnir í ný störf. Herinn skapaði okkur atvinnuöryggi í tugi ára, og því var kippt undan okkur á einu sumri.

Viljum við að börnin okkar, barnabörnin og barnabarnabörnin lendi í því að atvinnuörygginu verði kippt undan þeim einn daginn eftir 50 ár þegar jarðvarmaorkan á Reykjanesskaganum er uppurinn og álverið yfirgefur okkur eins og herinn gerði?

Við höfum nú þegar einn risavinnustað, Flugstöðina, þar fjölgar störfum á hverju ári. Ef við viljum endilega veðja öllu á einn stóran hest þá skulum við veðja á Flugstöðina og alla þá starfsemi sem tengist henni.

Nú eru uppi áform hjá sveitarfélögunum að koma upp háskólastarfsemi og tæknigörðum á Varnarliðssvæðinu. Á Akureyri er þekkt dæmi um hvernig það að hafa háskóla á svæðinu getur komið af stað mikilli nýsköpun í atvinnulífinu. Veðjum á þann trausta hest.

Veðjum líka á það að við séum full af góðum hugmyndum  og hugviti sem við getum virkjað og grætt á.

 


Umfjöllun fjölmiðla um Sól á Suðurnesjum

Samfélagið í nærmynd fékk Guðbjörgu R. Jóhannesdóttur, talskonu Sólar á Suðurnesjum og Berg Sigurðsson, framkvæmdastjóra Landverndar í viðtal í dag. Viðtalið er að finna á vef RÚV.

Á vef Landverndar má finna tengla á helstu umfjallanir fjölmiðla um fundinn sem haldinn var síðastliðinn föstudag og greinar tengdar honum.


Morgunblaðið styður kröfu Sólar á Suðurnesjum um kosningu!

Leiðari Morgunblaðsins í dag (14. janúar) gerir fund Sólar á Suðurnesjum á föstudagskvöld og kröfu fundarins um kosningu um álver í Helguvík að umfjöllunarefni sínu. Þar segir um fundinn: "Þar kom fram krafa um að efnt yrði til kosningar á Suðurnesjum um þau áform [um álver í Helguvík]. Þetta er auðvitað sjálfsagt mál". 

Í leiðaranum kemur fram að Morgunblaðið sé þeirrar skoðunar að "íbúar í viðkomandi sveitarfélögum eigi að taka ákvarðanir um meiri háttar mál í almennri atkvæðagreiðslu innan viðkomandi byggðarlags". Það er mikið ánægjuefni að upp sé að vakna umræða um opið lýðræði á Íslandi. Eins og bent er á í leiðaranum hefur almenningur í dag aðgang að sömu upplýsingum og kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum og þess vegna ætti það að vera mjög eðlilegt að ákvarðanir séu teknar í almennum atkvæðagreiðslum þegar um stór mál er að ræða.

Eins og Ólafur Páll Jónsson, heimspekingur bendir á í grein sinni "Prútt eða rök og réttlæti: Tvær hugmyndir um lýðræði" hafa á síðustu áratugum komið fram nýjar hugmyndir um lýðræði, hugmyndir um svokallað rökræðulýðræði. Þar er gert ráð fyrir mun meiri þátttöku almennings í ákvarðanatöku heldur en í hinu hefðbundna fulltrúalýðræði. Fyrir áhugasama má benda á að grein Ólafs er að finna á hér.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar er ekki sammála leiðarahöfundi Morgunblaðsins um að þörf sé á kosningum þegar um stór mál eins og byggingu álvers og virkjana er að ræða. Á baksíðu Morgunblaðsins í dag segir hann: "Ekki verður gengið til íbúakosninga á Suðurnesjum vegna fyrirhugaðs álvers Norðuráls í Helguvík" Árni segir að fyrirhugaðar kosningar Hafnfirðinga um stækkun í Straumsvík kalli ekki á sambærilega kosningu á Suðurnesjum vegna þess að í Hafnarfirði séu "áhyggjur manna fyrst og fremst vegna nálægðar við íbúabyggð sem ekki er í okkar tilfelli" Árni virðist vera að gleyma því að umhverfisáhrif vegna álversins verða líka vegna virkjana og háspennulína á Reykjanesskaganum. Þessi umhverfisáhrif snerta  íbúa allra sveitarfélaga á Suðurnesjum og þess vegna þurfa allar sveitarstjórnirnar að taka afstöðu til kosninga.

"Hvers vegna skyldu menn vera á móti lýðræði? Hvers vegna skyldu kjörnir fulltrúar vera andvígir því að fólkið sjálft fái að segja sitt?" spyr leiðarahöfundur Morgunblaðsins. Einu rökin sem honum dettur í hug eru þau að sá almenningur sem myndi kjósa hefði ekki nægilegar upplýsingar undir höndum. En þar sem við höfum í nútímasamfélagi öll aðgang að sömu upplýsingum er ekkert því til fyrirstöðu að kjörnir fulltrúar kanni vilja almennings áður en stórar ákvarðanir um framtíð samfélagsins eru teknar.

Sól á Suðurnesjum hvetur alla íbúa Reykjaness til að taka virkan þátt í lýðræðinu og krefjast þess að fá að nýta rétt sinn til kosninga um stór mál!

 


mbl.is Ekki kosið á Suðurnesjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirlýsing frá fundi Sólar á Suðurnesjum í Svarta pakkhúsinu Reykjanesbæ 12. janúar 2007

Opinn fundur Sólar á Suðurnesjum krefst þess að fallið verði frá áformum um álver í Helguvík og virkjanir á Reykjanesskaganum þar til vilji íbúa hefur verið kannaður með kosningu. Hafnfirðingar einir fá að kjósa um hugsanlega stækkun álvers í Straumsvík jafnvel þó virkjanir vegna stækkunarinnar verði í öðrum landshluta. Öll mannvirki vegna stóriðjuáforma í Helguvík verða hinsvegar á Reykjanesskaganum og því er réttur Suðurnesjamanna til kosninga um málið augljós.

Reykjanesskaginn hefur jarðfræðilega sérstöðu á heimsvísu þar sem þar er að finna eina staðinn á jörðinni þar sem berlega má sjá hvar úthafshryggur gengur á land með eldsumbrotum og jarðhræringum. Jarðfræðileg sérstaða, ásamt nálægð við Bláa Lónið, flugvöllinn og höfuðborgina skapar einstök tækifæri fyrir ferðaþjónustuna. Stóriðjuáform samræmast illa langtímahagsmunum ferðaþjónustunnar. Gríðarleg tækifæri eru til útivistar á Reykjanesskaganum en háspennulínur myndu rýra útivistargildi hans til muna.

Líta verður á fyrirætlanir um álver og tilheyrandi virkjanir í stærra samhengi til framtíðar, því að á stórum svæðum sem á að virkja á suðvesturlandi endist orkan ekki nema í nokkra áraugi og því er ekki um sjálfbæra þróun að ræða. Lítil sem engin umræða hefur farið fram um málið á meðal íbúa svæðisins og þrátt fyrir skiptar skoðanir íbúa er unnið að framvindu málsins af fullum krafti. Virkjanir með tilheyrandi umhverfisraski myndu rísa í landi Grindavíkur, Voga og Hafnarfjarðar. Háspennulínur myndu fara um þessi sömu sveitarfélög og þar að auki um Stafnes og Ósabotna í landi Sandgerðis. Álverið sjálft yrði staðsett í Garðinum og myndi mengun frá því skerða loftgæði jafnt þar sem og í Reykjanesbæ.


AÐ fara að lögum, þó það nú væri.

Menn virðast ánægðir með að "Norðurálsmenn eru samstiga okkur í því að hér verði beitt bestu fáanlegu tækni til hreinsunar á útblæstri frá álverinu".  Það gleymist að nefna að besta fáanlega tækni er lögboðin krafa skv. lögum nr. 7/1998, en ekki velvild og góðmennska Norðuráls.

 Á mannamáli hefur Bergur Sigurðsson hjá Landvernd skýrt hugtakið þannig:
“Besta fáanlega tækni hverju sinni er ódýrasta lausnin sem tilgreind er í BAT skýrslum og tryggir að ekki verði farið yfir umhverfismörk utan þynningarsvæðis. “

Í lögum 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir er skilgreiningin þannig:
"Besta fáanlega tækni er framleiðsluaðferð og tækjakostur sem beitt er til að lágmarka mengun og myndun úrgangs. Tækni nær til framleiðsluaðferðar, tækjakosts, hönnunar mannvirkja, eftirlits og viðhalds búnaðarins, svo og starfrækslu hans. Með fáanlegri tækni er átt við aðgengilega framleiðsluaðferð og tækjakost (tækni) sem þróaður hefur verið til að beita í viðkomandi atvinnurekstri og skal tekið mið af tæknilegum og efnahagslegum aðstæðum. Með bestu er átt við virkustu aðferðina til að vernda alla þætti umhverfisins."

Það þarf greinilega ekki mikið til að gleðja ál og virkjunarsinna á Suðurnesjum, bara uppfylla lögin og þá eru allir hamingjusamir. Eða hvað???


mbl.is Samið um staðsetningu fyrirhugaðs álvers í Helguvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband